Kynferðislegt ofbeldi í hernaði

0
559

Baráttan við refsileysi skilar árangri

-eftir Margot Wallström, Sérstakan erindreka framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á sviði kynferðislegs ofbeldis í hernaði.

(Þessi grein birtist í nokkrum evrópskum stórblöðum, þar á meðal Fréttablaðinu á Íslandi)

PanziLeikkonan Charlize Theron heimsækir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis á sjúkrahúsinu Panzi í Bukavu í Kongó. Theron er friðarsendiboði Sameinuðu þjóðanna.

Kynferðislegt ofbeldi í hernaði er alvarlegt mein sem bitnar á milljónum manna um allan heim. Eitt stærsta viðfangsefnið í mannréttindabaráttu í heiminum er að binda enda á skipulagða beitingu kynferðislegs ofbeldis í styrjaldarátökum.  Skýrsla framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til Öryggisráðsins 23. febrúar markar tímamót því þar eru í fyrsta skipti nafngreindir einstaklingar sem gerst hafa sekir um kynferðislegt ofbeldi í hernaði. Birting lista yfir þessa einstaklinga, er nýjasta vopn Öryggisráðsins til að vinna bug á refsileysi og kröftug yfirlýsing þess efnis að þeir sem láti kynferðislegt ofbeldi líðast, brjóti með því alþjóðalög.

Drengjum nauðgað í fangelsum

Sum einstök dæmi, sem nefnd eru í skýrslunni, eru átakanleg. Frásagnir hafa borist frá Sýrlandi frá körlum sem segjast hafa verið misnotaðir kynferðislega og orðið sjálfir vitni að því að unglingspiltum hafi verið nauðgað. Og í Lýbíu var konum rænt á heimilum sínum, í bifreiðum eða á götum úti og þær fluttar á ókunna staði þar sem þeim var nauðgað. Körlum var nauðgað í endaþarm í fangelsum í því skyni að knýja þá til sagna.

Það er í senn jákvætt og hvetjandi að Öryggisáðið láti, hér eftir sem hingað til,  kynferðislegt ofbeldi í hernaði til sín taka. Engu að síður hef ég enn sem fyrr þungar áhyggjur af látlausum mannréttindabrotum um allan heim, þar á meðal tíðni nauðgana í tengslum við átök.  Sérstaklega er áhyggjuefni að í mörgum tilfellum eru það öryggissveitir ríkja sem gera sig sekar um kynferðislegt ofbeldi, og höggva þar þeir sem síst skyldi, því hlutverk þeirra er að vernda borgarana. Einkennisbúningurinn á að vera tákn öryggis, aga og almannaþjónustu en er á allt of mörgum stöðum táknmynd, nauðgana, rána og gripdeilda; ógnar og skelfngar.

Wallström
Annað dæmi er beiting kynferðislegs ofbeldis eða hótana um slíkt, sem kúgunartækis í kosningabaráttu eða til að brjóta borgaralegt andóf á bak aftur. Við þekkjum einnig dæmi þess að kynferðislegu ofbeldi sé beitt í fangelsum og á landamærum þar sem átök geisa.

Stjórnmála- og herforingjar á átakasvæðum nota kynferðisglæpi til að ná fram pólítiskum, hernaðarlegum og efnahagslegum markmiðum með því að rekja upp þá þann vef sem hnýtir samfélagið saman í eina heild.

Beiting þessa þögla, ódýra og áhrifaríka vopns hefur í för með sér alvarlegar og langvarandi afleiðingar, jafnt fyrir þolandann, sem og vonir um að hægt sé að koma á varanlegum friði. Það er lífseig þjóðsaga að nauðganir séu óumflýjanlegar á stríðstímum. En ef hægt er að skipuleggja kynferðislegt ofbeldi, þá er einnig hægt að refsa gerendum; ef hægt er að fyrirskipa það, þá er hægt að fordæma það.

Barátta við refsileysi skilar árangri

Refsileysi er þýðingarmikið mál í mörgum ríkjum. Þess vegna hef ég skorið upp herör gegn refsileysi við kynferðislegum glæpum. Við sjáum þess nú merki að þetta er farið að skila árangri, til dæmis í Lýðveldinu Kongó (DRC): Á innan við ári hafa með fulltingi Sameinuðu þjóðanna verið haldin 250 réttarhöld yfir liðsmönnum öryggissveita ríkisins. Í kjölfarið hafa meir en 150 einstaklingar verið dæmdir fyrir nauðgun og annars konar kynferðislega glæpi.

Enn er margt ógert í baráttunni við nauðganir sem vopns í hernaði.  Ég mun halda áfram með aðstoð Öryggisáðsins að berjast fyrir því að refsileysi heyri sögunni til og tryggja að gerendur verði dregnir fyrir dóm. Í þessari baráttu treysti ég á vilja Öryggisráðsins til grípa til allra tiltækra ráða.

Margot Wallström er Sérstakur erindreki framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði kynferðislegs ofbeldis í hernaði. Wallström gegndi áður ráðherraembættum í heimalandi sínu Svíþjóð og var varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins áður en hún gekk til liðs við Sameinuðu þjóðirnar.