Landeyðing veldur 3.2 milljörðum manna búsifjum

0
728
Eyðmerkurmyndun
Mynd: Unsplash/Paweł Czerwiński

Ef okkur á að takast að brauðfæða tíu milljarða manna árið 2050 er okkur nauðugur einn kostur að breyta lífsháttum okkar. Að öðrum kosti mun ekki verða nægt ræktarland eftir í heiminum

Alþjóðadagur baráttu gegn eyðimerkurmyndun og þurrkum er haldinn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 17.júní ár hvert. Að þessu sinni er athyglinni beint að linnulausri framleiðslu- og neysluaukningu. Hún er aflvaki eyðimerkurmyndunar og ágangs á land.

Spurn eftir landi til matvæla- og fóðurframleiðslu og trefja til fataframleiðslu, eykst stöðugt. Aukningin helst í hendur við að jarðarbúum fjölgar, velmegun eykst og borgir stækka. Á sama tíma minnkar framleiðni ræktanlegs lands og því hnignar, meðal annars af völdum loftslagsbreytinga.

„Heilbrigði mannkynsins helst í hendur við heilbrigði plánetunnar,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi á alþjóðlega deginum. „Plánetan okkar er veikburða. Landeyðing veldur 3.2 milljörðum manna búsifjum. 70% lands í heiminum hefur verið umbreytt af völdum mannsins.”

Það er til lausn

Eyðimerkurmundun
Mynd: Unsplash/Markus Spiske

Matvæli, fóður og trefjar keppa einnig við útþenslu borga og eldsneytisiðnaðinn. Allt þetta veldur því að landi er umbreytt. Eyðist það á ósjálfbærum hraða með þeim afleiðingum að framleiðsla dregst saman, vistkerfi skaðast og fjölbreytni lífríkisins minnkar.

Þetta er líka vatn á myllu loftslagsbreytinga. Um fjórðungur losunar gróðurhúsalofttegunda á rætur að rekja til landbúnaðar, trjáiðnaðar og annars konar landnotkunar. Fata- og skóframleiðsla veldur 8% losunar í dag. Því er spáð að þetta hlutfall verði 50% innan tíu ára, árið 2030.

„Við verðum að snúa þessari þróun við og finna lausnir við margs konar vanda, frá þvingaðri uppflosnun fólks og hungri til loftslagsbreytinga,“ segir Guterres. „Á Sahel-svæðinu í Afríku hefur Græni múrinn breytt lífi fólks til hins betra og eflt lífsviðurværi fólks frá Senegal til Djibouti. 100 milljónir hektarar (1 milljón ferkílómetra) af eyddu landi hafa verið endurheimtir. Og þar með hefur áunnist fæðuöryggi, hagur heimila verið tryggður og störf sköpuð.“

„Aðgerðir af þessu tagi stuðla að því að endurheimta fjölbreytni lífríkisins, draga úr afleiðingum loftslagsbreytinga og auka seiglu samfélaga. Þegar upp er staðið er ágóðinn tífalt meiri en fjárfestingin.“

Nægt land til að svara eftirspurn

Með því að breyta hegðun neytenda og fyrirtækja, taka upp skilvirkari áætlanagerð og sjálfbærar aðferðir er hægt að tryggja að nægt landrými sé til og eftirspurn mætt.

Ef hver neytandi kaupir aðeins vörur sem ekki valda landeyðingu, myndi efirspurn eftir þessum  vörum minnka og ákveðin skilaboð yrðu send jafnt framleiðendum og þeim sem ráða stefnunni.

Breytingar á mataræði og hegðun, með því að draga úr matarsóun, með því að kaupa framleiðslu úr nágrenninu og skipast á fötum í stað þess að kaupa alltaf ný -getur losað um land sem hægt er að nota til annara hluta og minnkað kolefnissporið. Breytingar á mataræði geta haft í för með sér að það losni um á bilinu 800 þúsund ferkílómetra lands til 24 milljónir (80 til 240 milljónir hektara).

Í dag hafa eyðst meir en 200 miljónir ferkílómetra eða tveir milljarðar hektara lands sem áður voru nýttir til framleiðslu. Mannshöndin hefur umbreytt meir en 70% náttúrulegra vistkerfa og hlutfallið gæti verið orðið 90% árið 2050.

Fyrir 2030 má búast við að matvælaframleiðsla krefjist þriggja milljóna ferkílómetra (300 milljóna hektara) lands eða sem samsvarar einu og hálfu Grænlandi.

Á sama tíma er búist við að tískuiðnaðurinn þurfi á 35% meira ræktarlandi að halda eða 1.15 miljón ferkílómetra (115 milljón hektara)  sem er álíka stærð Suður-Ameríkuríkisns Kólombíu eða meir en tvöfalt yfirborð Svíþjóðar.