Summit of the Future
22.-23. september 2024
Leiðtogafundur framtíðarinnar
Fjölþjóða lausnir í þágu betri framtíðar

Sáttmáli framtíðarinnar fyrstu drög

Þýskaland og Namibía, sem miðla málum í viðræðum um leiðtogafundinn, hafa birt fyrstu drög að Sáttmála framtíðarinnar. Drögunum er ætlað að vera upphafspunktur milliríkjaviðræðna á þessu ári með það að lokamarkmiði að samþykkja metnaðarfullan, hnitmiðaðan og aðgerðamiðaðan framtíðarsáttmála, sbr. ályktun 76/307.

Fyrstu DRÖG AÐ SÁTTMÁLA FRAMTÍÐARinnar [PDF]

BOÐ til SAMRÁÐs UM fyrstu DRÖG sáttmálans

BRÉF TIL HELSTU HÓPA OG ANNARRA HAGSMUNAAÐILA OG BORGARALEGS SAMFÉLAGS: fyrstu DRÖG

Taktu þátt

Hvað er leiðtogafundur framtíðarinnar?

Leiðtogafundurinn er samkoma fulltrúa í æðstu stöðum til þess að samþykkja nýtt alþjóðlegt samkomulag um hvernig við bætum samtíð okkar og tryggjum gæfuríkari framtíð.

Þetta er einstakt tækifæri til að endurheimta það traust sem hefur glatast og sýna fram á að alþjóðleg samvinna geti tekist á skilvirkan hátt við núverandi áskoranir. Jafnframt að hægt sé að takast á við úrlausnarefni sem hafa skotið upp kollinum á undanförnum árum eða kunna enn að vera handan sjóndeildarhringsins.

Við höfum nú þegar úrræði í formi margra núverandi samninga og skuldbindinga, svo sem sáttmála Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, Áætlun 2030 um Sjálfbæra þróun (Heimsmarkmiðin), Parísarsamkomulagið, Addis Abbaba-áætlunina svo eitthvað sé nefnt.

Leiðtogafundur framtíðarinnar mun gaumgæfa með hvaða hætti við getum unnið betur saman til að uppfylla ofangreind markmið. Hvernig mætum við betur þörfum nútímans og búum okkur um leið undir áskoranir framtíðarinnar?

Í átt til Sáttmála framtíðarinnar

Markmið leiðtogafundarins er tvíþætt: að hraða aðgerðum til að uppfylla núverandi alþjóðlegar skuldbindingar og taka áþreifanleg skref til að bregðast við nýjum áskorunum og tækifærum.

Þessu verður náð fram með aðgerðamiðuðu lokaskjali sem kallast Sáttmáli framtíðarinnar.

Sáttmálinn verður fullunninn og samþykktur af ríkjum heims í aðdraganda og á leiðtogafundinum í september 2024.

Stefnt er að niðurstöðu sem auðveldi heiminum– og alþjóðlega kerfinu–að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir nú og í framtíðinni, mannkyninu öllu og komandi kynslóðum til heilla.

UMFANG LEIÐTOGAFUNDAR FRAMTÍÐAR [PDF]

BRÉF forseta Allsherjarþingsins [PDF]

Hvers vegna leiðtogafundurinn skiptir máli

Heimurinn er ekki á réttri leið í viðleitni sinni til að ná þeim markmiðum sem við höfum þegar sett okkur. Við erum heldur ekki í stakk búin til að glíma við nýjar áskoranir eða tækifæri.

Þau samstarfs- og viðbragðakerfi sem við búum yfir hafa ekki haldið í við aukinn hraða og flækjustig samtímans.

Framförum hafa fylgt ávinningur og ný tækifæri en þeim er misskipt og meirihluti fólks situr eftir.

Áhættan og ógnirnar eru einnig misjafnar og bitna óhóflega á þeim sem standa höllustum fæti.

 Fátækt og hungur eru víða í heiminum. Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu er með því mesta í heimssögunni, sem og fjöldi fólks sem flosnað hefur upp. Ógnir á borð við loftslagsbreytingar, átök, fæðuóöryggi, gereyðingarvopn, farsóttir og heilbrigðiskreppur, bætast við þá hættu sem kann að stafa af nýrri tækni.

Fjölþjóðlegir stjórnhættir, sem eru barn einfaldari og hægari tíma, eiga ekki lengur við margslunginn, samtengdan og ört breytilegan heim nútímans.

Leiðtogafundurinn er tækifæri til að beina okkur á rétta braut.

Hverjar eru rætur leiðtogafundar framtíðarinnar?

Tillagan um leiðtogafund framtíðarinnar á uppruna sinn í skýrslunni Sameiginleg verkefni okkar (Our Common Agenda). Skýrslan var svar aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við beiðni aðildarríkjanna um að setja fram hugmyndir um hvernig betur mætti bregðast við áskorunum í nútíð og framtíð.

Skýrslan um sameiginlegu úrlausnarefnin hvatti til endurnýjunar trausts og samstöðu á öllum stigum – milli þjóða, landa og kynslóða. Þar voru færð rök fyrir grundvallarendurskoðun á pólitískum, efnahagslegum og félagslegum kerfum okkar með það fyrir augum að þau verði sanngjarnari og skilvirkari öllum til hagsbóta. Hún mælti einnig með samsvarandi endurnýjun fjölþjóða kerfisins. Leiðtogafundur um framtíðina skyldi vera afgerandi tímapunktur til að ná samkomulagi um mikilvægustu nauðynlegu umbæturnar.

Aðildarríkin samþykktu að halda leiðtogafundinn í september 2024. Þau voru einnig sammála um að niðurstaða leiðtogafundarins yrði – Sáttmáli framtíðarinnar.

Þau lýstu megintilgangi leiðtogafundarins og sáttmálans:

  • – að staðfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna,
  • – að endurlífga fjölþjóðlegt samstarf,
  • – að tryggja efndir á fyrirliggjandi skuldbindingum,
  • – að ná samkomulagi um lausnir á nýjum viðfangsefnum, og
  • – að endurvinna traust.

YFIRLIT LEIÐTOGAFUNDAR [PDF]

SAGA LEIÐTOGAFUNDARINS

SAMEIGINLEGAR STEFNUSKRÁR

Hvernig mun leiðtogafundur framtíðarinnar greiða fyrir Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun?

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eru illa á veg komin.

Leiðtogafundurinn um framtíðina mun greiða fyrir því að hægt sé að innleiða Dagskrá 2030 um sjálfbæra þróun.

Það verður gert með því að byggja á niðurstöðum leiðtogafundar heimsmarkmiðanna 2023.

Auk þess mun fundurinn leiða til umbóta í alþjóðlegu samstarfi sem gerir okkur kleift að leysa vandamál í sameiningu.

Við munum geta virkjað ný tækifæri til hagsbóta fyrir alla, ekki bara hina fáu, og stýrt áhættunni á skilvirkari hátt.

Sérhver tillaga sem aðalframkvæmdastjórinn leggur fram til umfjöllunar á leiðtogafundi framtíðarinnar mun hafa augljós áhrif á framgang heimsmarkmiðanna.