Leiðtogafundur um fötlun á næsta ári

0
454

Fatlaðir

3. desember 2012. Á þessum degi ár hvert er haldinn Alþjóðlegur dagur fatlaðra. Tilgangur alþjóðlega dagsins 3. desember er sá að auka vitund og skilning á málefnum sem tengjast fötlun.

Segja má að fatlað fólk sé stærsti minnihlutahópur í heimi en 15% allra íbúa heimsins eða einn milljarður manna býr við einhvers konar fötlun.

Þema dagsins í ár er að ryðja úr vegi hvers kyns hindrunum fyrir því að fatlaðir geti tekið fullan þátt í þjóðfélaginu. Fólk sem býr við fötlun rekst oft á hindranir sem hamlar þátttöku þess á öllum sviðum þjóðlífsins. Hindranirnar geta tekið á sig ýmsar myndir. Þetta geta verið hindranir í bókstaflegum skilningi sem hindra fatlaða í að komast á milli staða en þetta geta líka verið lagasetning eða stefnumörkun, framkoma eða mismunun.

Afleiðingarnar eru þær að fatlað fólk hefur ekki sama aðgang og aðrir að þjóðfélaginu eða þjónustu, þar á meðal menntun, heilsugæslu, samgöngum, pólitískri þátttöku eða dómstólum.

Allt samfélagið hagnast á því að hindrunum sé rutt úr vegi. Eins og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í ávarpi sínu á degi fatlaðra: “Fatlað fólk hefur umtalsverð og jákvæð áhrif á samfélagið og framlag þess getur orðið enn meira ef hindrunum er rutt úr vegi. Meir en milljarður manna býr við einhvers konar fötlun. Okkar áskorun er að tryggja að allir hafi þann aðgang sem þeir hafa bæði rétt á og eiga skilið. Þegar öllu er á botninn hvolft, væri þetta skref í átt að betri heimi fyrir alla.”.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mun halda sérstakan fund háttsettra pólitískra oddvita um fötlun og þróun á næsta ári. Markmið fundarins er að hvetja til að brúa bilið á milli vel meinandi yfirlýsinga og löngu tímabærra aðgerða.

Mynd: Á alþjóðlegum degi fatlaðra í Kabúl, Afganistan 2010. SÞ/Fardin Waez