Leiðtogar hvattir til að standa við loforð sín

0
428
alt

Ban Ki-moon hvatti leiðtoga heims í dag til að hvika ekki frá ákvörðunum um að binda enda á sárustu fátæktina í heiminum. Í ávarpi sínu við upphaf þriggja daga leiðtogafundar um Þúsaldarmarkmiðin um þróun sagði Ban að ekki mætti svíkja loforðin vegna skorts á fjárfestingum, aðstoð og pólitískum vilja til að koma bágstaddasta fólki heims til aðstoðar.

 “Verðugra verkefni en Þúsaldarmarkmiðin er ekki til, “ sagði Ban í ávarpi til nærri 140 þjóðhöfðingja og oddvita ríkisstjórna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. “Við skulum senda héðan öflugan vonar-boðskap. Stöndum við loforðin.”

alt

Joseph Deiss (fyrir miðju), Forseti 65. Allsherjarþingsins setur Leiðtogafundinn um Þúsaldarmarkmiðin um þróun í New York í dag (20. september). Ban Ki-moon er honum á hægri hönd en á vinstri hönd er  Ali Abdussalam Treki, fráfarandi forseti 64. Allsherjarþingsins.  SÞ-Mynd: Rick Bajornas.

Leiðtogafundurinn á Allsherjarþinginu er haldinn til að fara yfir framgang Þúsaldarmarkmiðanna en þeirra á meðal eru fyrirheit um að minnka sárustu fátækt, berjast gegn sjúkdómum og hungri, vernda umhverfið og efla menntun. Fundarins bíða ákvarðanir um hvernig skuli haldið áfram til þess að markmiðunum verði náð fyrir 2015 eins og stefnt er að.

Ban sagði að “raunverulegur árangur” hefði náðst frá því Þúsaldarmarkmiðin voru samþykkt þúsaldar- og aldamótaárið 2000, þar á meðal í kraft aukinnar grunnskólamenntunar, aukins aðgangs að hreinu vatni og árangurs í baráttu við skæða sjúkdóma.

“Við státum af meiri árangri í þróunarmálum en nokkru sinni fyrr. Þúsaldarmarkmiðin hafa sannarlega stuðlað að því að lyfta grettistaki víða. Við getum verið stolt af þessu, en árangurinn er oft og tíðum brothættur og því verðum við að hlúa að honum. Klukkan tifar og það er margt eftir að gera.”

Hann hvatti rík lönd sérstaklega til að svíkja ekki fyrri fyrirheit um opinbera þróunaraðstoð við fátæk ríki sem hann sagði líflínu „milljarða virði í þágu milljarða manna.”