19.desember 2016. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að forseti og varaforseti Suður-Súdan beri ríka persónulega ábyrgð á ófremdarástandinu í landinu sem senn fagnar fimm ára sjálfstæðisafmæli sínu.
Suður-Súdan er olíuauðugt land en eftir illdeilur og átök forseta og varaforseta undanfarin ár ríkir vargöld í landinu og sex milljónir manna reiða sig á neyðarástand til að forðast hungurvofuna.
Ban Ki-moon, segir í kjallaragrein sem birtist í bandaríska vikuritinu Newsweek og fleiri blöðum í dag, að leiðtogar Suður-Súdan beri höfuðábyrgðina á því að vonir Suður-Súdana um bjarta framtíð þegar sjálfstæði var lýst yfir 2011, hafi brugðist.
„Salva Kiir, forseti hefur notað flokkadrætti á meðal ættbálka til þess að berja niður andóf, þagga niður í fjölmiðlum, útiloka mikilvæga aðila frá þátttöku í friðarferlinu,” segir Ban Ki-moon.
Höfuðandstæðingar Salva Kiir, þar á meðal Machar varaforseti eru heldur ekki saklausir að mati aðalframkvæmdastjórans.
„Á sama tíma hafa aðgerðir suður súdanskra leiðtoga, þar á meðal Rick Machar og annara vopnaðra stjórnarandstæðinga verið olía á eld átaka og eflt flokkadrætti á meðal ólíkra ættbálka.”
Ban bendir á að þótt miklvægt sé að efla friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna UNMISS, dugi það ekki til, pólitískrar lausnar sé þörf.
„Átökum verður að linna og í þeirra stað ber að hleypa lífi í pólitískt ferli sem nær til allra hlutaðeigandi aðila. Ef þetta tekst ekki ber Öryggisráðinu að samþykkja vopnasölubann og beita hnitmiðuðum refsiaðgerðum til þess að breyta hugsunarhætti deilenda og sannfæra þá um að að velja leið friðar.”
Ban segir að draga verði þá til ábyrgðar sem beri ábyrgð á grimmdarverkum, jafnt yfirmenn sem undirmenn.
Þá bendir hann á að þýðingarmikið sé að grípa til aðgerða nú þegar því stríðandi fylkingar búi sig undir að hefja átök á ný þegar regntímabilinu lýkur.