Líf milljóna manna í veði

0
451

WFP

15. janúar 2013. Á fáum mönnum í heiminum mæðir eins mikið og á John Ging en á hans herðum hvíla mannúðarmál hjá Sameinuðu þjóðunum.

Ging er aðgerðastjóri hjá OCHA, en það er sú deild Sameinuðu þjóðanna sem samræmir mannúðaraðstoð í heiminum. Í því starfi hefur John Ging í mörg horn að líta enda matvælaskortur og pólitískur óstöðugleiki víða um heim frá Sahel-svæðinu í Afríku til átakanna í Sýrlandi.
Ging er sannkallaður reynslubolti og hefur marga fjöruna sopið td. í Kongó, Kosovo og á Gasa-svæðinu og því öllum hnútum kunnugur.

 

Hvernig er ástandið í mannúðarmálum heimsins í dag, hvar kreppir skórinn að?

John Ging:  Við glímum við margar kreppur í einu, allt frá loftslagsbreytingum sem herja á staði á borð við Sahel-svæðið og þvert yfir Afríku að austurodda álfunnar. Það hafa verið flóð á Filipsseyjum og einnig í Ameríkunum tveimur. Þá eru átök í fjölmörgum ríkjum, Súdan-ríkjunum tveimur, Lýðveldinu Kongó (DRC), Afganistan, Jemen, að ótöldum Mið-Austurlöndum en þar ber Sýrland hæst. Við ættum heldur ekki að gleyma ríkjum á borð við Mið-Afríkulýðveldið og Tsjad og svo mætti lengi telja.
Við þurfum að geta leitað á ný mið til að afla fjár. Við erum komin að endamörkum með þá sem nú þegar láta fé af hendi rakna.

Þegar við svo margt er að glíma í einu, hvernig gengur OCHA að koma aðstoð til alls þessa þurfandi fóks?

John Ging: Verkefni OCHA er að samræma mannúðaraðstoð og fyrsta skrefið í þeirri viðleitni er að koma til skila á greinargóðan hátt hverjar þarfir fólksins eru. Við erum nýbúin að gefa út Heimsákall (Global Apeals) fyrir 2013. Þarna heitum við á ríki heims að koma til aðstoðar fimmtíu og einni milljón manna sem þarfnast mannúðaraðstoðar. Upphæðin er 8.5 milljarðar Bandaríkjadala.Sextán ríki eiga hlut að máli og 520 stofnanir og samtök vinna að málum þeirra. OCHA reynir að koma til skila umfangi, magni og breidd þarfanna í þeirri von að fá rausnarleg viðbrögð því afleiðingarnar eru að tugir þúsunda týna lífi og skelfing blasir við milljónum manna. .
 
ging ocha afghan april 2012Hversu vel tókst til á síðasta ári, 2012 ?

John Ging: Í heimsákallinu 2012, fórum við fram á 5.3 milljarða Bandaríkjadala og okkur tókst að afla 60% þess fjár. Við unnum hörðum höndum með því sem kallað hefur verið “samfélag gefenda” (donor community) og þar gera menn sitt besta við þær erfiðu aðstæður sem fjármálakreppan er. Þeir sem láta ævinlega fé af hendi rakna til þeirra sem minna mega sín, glíma sjálfir við erfiðleika og því er á brattann að sækja. Ég viðurkenni fúslega að okkur hefur ekki tekist að fjölga eins mikið í hópi gefenda og nauðsyn krefur. Þess vegna hefur ekki tekist að fjármagna verkefnið eins og stefnt var að í ákallinu.

Hvað sérðu fyrir þér 2013?

John Ging:  Við þurfum meira fé. Það er staðreynd. Og við gerum okkur ljóst að við verðum að finna nýja gefendur til að taka þátt í þessu verkefni.  

Ástandið í Sýrlandi fer síversnandi. Hversu miklu fær OCHA áorkað þar?

John Ging: Þeir sem sinna mannúðaraðstoð í Sýrlandi eiga í erfiðleikum og þarfirnar vaxa sífellt. Á síðustu örfáu mánuðum hefur þeim sem þurfa á aðstoð að halda fjölgað úr tveimur og hálfri milljón í meir en fjórar milljónir. Fjöldi flóttamanna hefur tvöfaldast. Vel rúmlega hálf milljón hefur flúið til nágrannaríkjanna. Og því miður versnar ástandið dag frá degi. Þeim sem flosnað hafa upp innanlands í Sýrlandi hefur fjölgað úr 1.2 milljónum í 2. Þetta er aðeins eitt dæmi um það sem fólk í Sýrlandi þarf að þola. Fólkið hefur orðið að flýja átakasvæðin og þeim fjölgar sífellt.
 
Mörg óáran herjar á Sahel-svæðið í Afríku. Hvað gerir OCHA þar?

John Ging: Matvælaskortur (fæðuóöryggi) er alvarlegasta vandamálið en hann er afleiðing þurrka. Öll ríkin á svæðinu líða fyrir þetta. Þarna þarf að lyfta grettistaki ekki aðeins í mannúðaraðstoð heldur einnig við að sinna þróunarverkefnum og efla þrautseigju í þessum samfélögum til að fólk geti brugðist við þurrkum með betri stýringu vatns, betri áveitu, skynsamlegra vali á uppskeru, betri nýtingu búfjár. Það er góð samvinna á milli ríkisstjórnanna og alþjóðlegra samtaka. Árangur er að nást.
Malí er svo auðvitað í miðri hringiðunni. Átökin þar bætast ofan á þennan vanda. Flóttamenn hafa leitað til nágrannaríkjanna sem hafa mikið á sinni könnu. Meir en 200 þúsund manns hafa flosnað upp innanlands í Malí og það er mikill vandi fyrir land sem þegar glímir við fæðuóöryggi.
Margt annað bætist við: glæpastafsemi þvert á landamæri og innan ríkja, vopnasmygl og mansal. Margt grefur undan þróun og stöðugleika á Sahel-svæðinu og við verðum að beina athyglinni líka að því.

Myndir:

Efri mynd: Mæður bíða þess að röðin komi að þeim í matvælastöð WFP í Bargadja í Maradai-héraði í Niger. WFP/Phil Behan

Neðri mynd: John Ging kannar ástandið í Afganistan í apríl á þessu ári.  OCHA