Líkamshlutar albínóa happagripir í kosningum

0
474
UN Photo Marie Frechon

UN Photo Marie Frechon 

15. Október 2015. Mannréttindasérfræðingur Sameinuðu þjóðanna krefst samhæfðra aðgerða í suður og austur Afríku til að bregðast árásum á albínóa eða hvítingja og segir árásum fjölga í aðdraganda kosninga.

Albínóar hafa löngum sætt mismunun í þessum hluta Afríku en í upphafi aldarinnar keyrðu um þverbak. Hendur, fætur og aðrir líkamshlutar eru höggnir af albínóum og seldir. Sú hjátrú er lífseig að auður og gæfa fylgi blóði, kjúkum, hári og húð albínóa. Skottulæknar selja jafnvel happagripi úr líkamshlutum albínóa.

Svo virðist sem eftirspurn eftir líkamshlutum fólks með albínisma hafi aukist í aðdraganda kosninga í nokkrum Afríku-ríkjum, segir frú Ikponwosa Ero, en hún er fyrsti sérstakur erindreki Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með albínisma.

„Ófáir stöndu jafn höllum fæti í þessum heimshluta og albínóar. Um aldir hefur ríkt sinnuleysi um hag þeirra og þeim hefur verið ýtt út á jaðar samfélagsins og mismunun orðin hversdagsleg,“ segir í yfirlýsingu erindrekans. 

„Nú bætist við ógæfu þeirra að þurfa að lifa í stanslausum ótta um að sæta áras fólks, jafnvel af hálfu fjölskyldunnar, vegna þess að líkamshlutar þeirra eru meira metnir en líf þeirra. Ég hef þungar áhyggjur af því að árásum fjölgar þegar boðað er til kosninga í þessum heimshluta.“
  
Frú Ero hvatti hlutaðeigandi ríkisstjórnir til að „grípa tafarlaust til sértækra aðgerða og efna til samstarfs innan heimshlutans og á alþjóða vettvangi til að stemma stigu við þessum hroðalegu glæpum.“ Þá hvatti hún alla stjórnmálaflokka til að  „tryggja að hvorki farmbjóðendur þeirra né stuðningsmenn tengist beint eða óbeint slíkum alvarlegum mannréttindabrotum.“

Albínismi orsakast af galla í erfðaefninu sem veldur skorti á litarefni (melaníni) í húð, hári og augum. Þeir einstaklingar sem fæðast albínóar framleiða annað hvort lítið eða ekkert litarefni sem leiðir til þess að þeir eru mjög hvítir á hörund, með hvítt hár og ljósblá, rauð eða stundum fjólublá augu, segir á vísindafréttavefnum Hvatinn. 

Albinismi er meðfæddur og er talið að 17 til 20 þúsund manns teljist albínóar í Evrópu og Norður-Ameríku. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að þetta sé algengara í Afríku sunnan Sahara og einn af hvrjum fimm til fimmtán þúsund manns fæðist albínói. Í sumum ættbálkum í Afríku er hlutfallið hærra eða einn af þúsund til fimmtán hundruð manns.

Sjá nýja vefsíðu Sameinuðu þjóðanna: „Fólk með albinisma: ekki draugar heldur manneskjur.“