Líkur aukast á friðargæslu SÞ í Malí

0
510

Mali

8. febrúar 2013. Líkur á því að Sameinuðu þjóðirnar taki við friðargæslu í Malí aukast stöðugt, segir yfirmaður friðargæslu samtakanna.
“Allt bendir til þess að þróunin sé í þess átt og við erum að búa okkur undir þetta,” segir aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Hervé Ladsous, yfirmaður Friðargæslunnar. 

Ríkisstjórn Malí hefur ekki beðið um stofnun slíkrar friðargæslusveitar, en berist slík beiðni mun málið koma til kasta Öryggisráðsins.
Í desember gaf Öryggisráðið alþjóðlegri sveit undir forystu Afríkuríkja umboð til að skakka leikinn í Malí og Frakkar sendu herlið þangað fyrir skemmstu til að styðja ríkisstjórnina í baráttu við uppreisnarmenn, einkum í norðurhluta landsins. Frakkar hafa lýst vilja sínum til að víkja fyrir sveit Sameinuðu þjóðanna.

Fyrr í vikunni var haldin ráðstefna á vegum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna auk Afríkusambandsins og samtaka Vestur-Afríkuríkja í Brussel.
Þar voru málefni Malí og Sahel-svæðisins rædd í víðu samhengi en hungursneyð hefur ríkt víða á þessu svæði, þurrkar hafa herjað á íbúanna, auk uppreisnarmanna íslamista, aðskilnaðarsinna og glæpaflokka. Jeffrey Feltman,yfirmaður pólitískrar deildar Sameinuðu þjóðanna lagði áherslu á það á fundinum að leita þyrfti langtíma lausna fyrir Malí og Sahel svæðið og viðleitni til að tryggja öryggi og finna pólitískar lausnir þyrftu að haldast í hendur.

Mynd: Kona með barn sitt í fjöruborði Níger-fljótsins við Bamako, höfuðborg Malí. SÞ/John Isaac