Ljósaganga og sýning á vegum UNRIC

0
446

väkivalta

23. nóvember 2012. Á sunnudag verður árleg Ljósaganga UN Women í tilefni af Alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Ljósagangan markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.

Í tilefni dagsins sýnir UNRIC Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna, í samvinnu við UN Women og Evrópustofu, veggspjöld með auglýsingum úr samkeppni sem skrifstofan hélt um bestu evrópsku auglýsinguna til stuðnings vígorðinu Segjum nei við ofbeldi gegn konum á síðasta ári. Ein íslensk auglýsing: Don´t treat us like trash eftir Elsu Nielsen  komst í hóp þrjátíu efstu en þær hafa verið sýndar víða um heim undanfarið ár.

Auglýsingarnar verða sýndar á Austurvelli og í Bíó Paradís.

Gangan hefst í Alþingisgarðinum kl. 19 og gengið verður að Bíó Paradís við Hverfisgötu. Þrír ljósberar verða heiðraðir í Alþingisgarðinum fyrir framlag sitt í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi á árinu.

Í Alþingisgarðinum getur ÞÚ skrifað undir eftirfarandi áskorun: Við krefjumst þess að stjórnvöld geri ALLT sem í þeirra valdi stendur til að útrýma ofbeldi gegn konum: hér heima og að heiman!

Í Bío Paradís verður svo sýnd verðlaunamyndin Tyrannosaur sem hlaut meðal annars Bafta verðlaunin.

Alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi er haldinn ár hvert 25. nóvember og þá hefst jafnframt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur fram að Mannréttindadeginum 10. desember.

Forystumenn Sameinuðu þjóðanna hvetja ráðamenn í heiminum til að grípa til aðgerða: „Á þessum alþjóðlega degi, hvet ég allar ríkisstjórnir til að standa við fyrirheit sín um að binda enda á hvers kyns ofbeldis gegn konum og stúlkum hvarvetna í heiminum“ segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Navi Pillay, Mannréttindastjóri samtakanna leggur út af máli hinnar fjórtán ára gömlu Malala Yousufzai sem lifði af árás Talibana í Pakistan fyrir skemmstu en hún hafði það eitt til saka unnið að hafa viljað mennta sig.

„Sannleikurinn er sá að mál Malala er síður en svo einsdæmi og sennilega hefði ekkert fréttst af árásinni ef hún hefði ekki verið orðin fræg. Í nágrannaríkinu Afganistan hafa Talibanar barist með ofbeldi fyrir því að banna menntun kvenna í þrjá áratugi.“

Í tilefni Alþjóðadagsins hefur Michele Bachelet, forstjóri UN Women opnað nýja vefgátt þar sem hægt er að fylgjast með aðgerðum ríkisstjórna á hverjum stað. Bachelet bendir á að nú hafi 125 ríki sett lög um heimilisofbeldi sem sé mikil fjölgun á aðeins tíu árum. Hins vegar búi 603 milljónir kvenna í ríkjum þar sem heimilisofbeldi sé ekki bannað með lögum.