Ljósið í myrkri Mið-Afríku

0
482

  Immonen 1

Það reynir líklega ekki jafnmikið á marga þessa dagana og Kaarina Immonen, næst æðsta yfirmann Sameinuðu þjóðanna í Mið-Afríkulýðveldinu.

Þúsundir hafa leitað á náðir samtakanna undan ofbeldisöldu sem riðið hefur yfir landið. Imonnen er Norðurlandabúi mánaðarins á vettvangi Sameinuð þjóðanna en hún er finnsk, fædd í Tansaníu. Hún hefur marga fjöruna sopið því hún hefur þegar starfað á vegum samtakanna í Kongó og Kambódíu, Rússlandi og Rúanda svo eitthvað sé nefnt. Nú er hún í Mið-Afríkulýðveldinu og ber marga titla, þar á meðal vara –sérstakur erindreki framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. 

“Ég lauk meistaraprófi í Genf í alþjóðafræðum og lagði áherslu á þróunarmál. Ég var svo heppin að fá stöðu hjá Sameinuðu þjóðunum á vegum Finnlands og var send til Kongó-Brazzaville. Ég var fædd í afskekktu þorpi í Tansaníu skömmu eftir sjálfstæði landsins og það hefur ef til vill orðið til þess að ég er fús til að vinna við erfiðar aðstæður. Átakastjórnun og uppbygging að loknum átökum hafa verið mikilvægur hluti af starfi mínu.”

Þú hefur verið vara-sérstakur erindreki frá desember 2012, hvað þýðir það? Hvernig er vinnudagurinn?

kaarina“Ég er til viðbótar samræmandi mannúðaraðstoðar- og þróunar auk þess að vera yfir UNDP (Þróunarstofnun SÞ) í landinu, þannig að það verður að skipuleggja hvern vinnudag vandlega, en vera viðbúin breytingum enda ástandið óstöðugt, svo ekki sé meira sagt. Við núverandi aðstæður er aðaláherslan á öryggi en við styðjum friðar- og avopnunarferlið. Við reynum að endurreisa starfsemi ríkisvaldsins með því að senda embættismenn til starfa á ný fyrir utan höfuðborgina Bangui, auk þess að skipuleggja kosningar og efla réttarkerfið.
Hörmungarnar sem íbúarnir eiga við að glíma er mesti mannúðarharmleikur í sögu landsins. Við höfum undirbúið neyðaráætlun og farið fram á andvirði 250 milljóna Bandaríkjadala 2014 til þess að sinna brýnustu þörfum fólksins. Á sama tíma þurfum við að sá fræjum endurreisnar og líta á hvert einasta atriði sem viðkemur vernd og þanþoli einstakra samfélaga, sáttum og félagslegri samheldni.

Í reynd ver ég einum degi í viku í vettvangsheimsóknir nú síðast til Booangoa þar sem 50 þúsund uppflosnaðir einstaklingar dvelja við ömurlegar aðstæður. Mikil spenna ríkir og mannúðaraðstoð er líflína fólksins.
Við höfum reynt að vekja fólk til vitundar um obeldi gegn konum. Því miður voru 25 konur sem tóku þátt í átaki á alþjóðlega daginn til höfuðs obeldi gegn konum, handteknar að ástæðulausu. Ég brást við þessu og náði að sannfæra ráðherra um að láta leysa þær úr haldi.
Frakkar hafa tekið að sér að gæta öryggis í landinu og greiða fyrir mannúðaraðstoð, þannig að ég þarf mikið að ræða við þá. Ekki má gleyma trúarleiðtogum en ég reyni að þrýsta á þá til að efla frið og samræður. Alls kyns samræmingarfundir eru nauðsynlegir og vegna tímamismunar bíður það seinni partsins að ræða við yfirmennina í New York. Við vinnum sjö daga vikunnar og því gleymir maður sér oft, en útgöngubann hefst klukkan sex og styttir auðvitað vinnudaginn.”

Immonen 2 resized-Þú hefur langar reynslu af starfi hjá SÞ. Auk þess sem þegar er nefnt má bæta við Víetnam, Georgíu og suðurhluta Kákasus. Hvernig er Mið-Afríka í þessu samhengi?
“Það hefur verið grátlegt að horfa upp á ríki sem var á góðri leið að öðlast stöðugleika og glæða þróun, sökkva í fen fordæmalausra átaka og neyðarástands, með allri þeirri neyð og hörmungum sem fylgja skefjalausu ofbeldi. Við slíkar aðstæður reyna SÞ-liðar að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að hjálpa og finna lausnir. Hugrekki og staðfesta innlends starfsfólks okkar er með ólíkindum. Ég vil nota tækifærið og biðja alþjóðasamfélagið að koma enn frekar til hjálpar þjáðum íbúum Mið-Afríkulýðveldisins.”

Þú tókst við af Dananum Bo Shack. Eru einhver sérstök norræn tengsl eða norræn áhersla í starfinu?
“Þetta er hrein tilviljun og það er fólk frá 44 ríkjum á vegum SÞ í landinu og fjölbreytnin er auðvitað okkar styrkur. Hins vegar er ástæða til að geta mikillar samstöðu sem Norðurlandabúar hafa sýnt með Mið-Afríkulýðveldinu eins og sjá má af fjárveitingum til starfs Sameinuðu þjóðanna í landinu.

-Hvað skref ætti að stíga nú til að bæta ástandið? Sérðu ljós í myrkrinu?

“Við verðum að horfast í augu við að hvert valdaránið hefur tekið við af öðru í Mið-Afríkulýðveldinu. Flestir leiðtogar ríkisins hafa komist til valda í krafti vopnavalds og uppreisna. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem landið má þola svo langvinna kreppu með hrikalegum afleiðingum fyrir sambúð ólíkra trúarbragða.

Eins og gefur að skilja er í augnablikinu brýnast að afvopna vígamenn og koma þeim fyrir og binda enda á ofbeldi gegn óbreyttum borgurum. Þótt sveitir Afríkubúa (MISCA) og Frakka gegni mikilvægu hlutverki í að koma á ró og friði og hindra útbreiðslu vopna, geta þær ekki tekið á helsta vanda landsins sem eru slæmir stjórnarhættir.

Pólitískar aðgerðir verða því að fylgja hernaðaraðgerðunum. Samræður, sættir og traust á milli ólíkra hópa eru nauðsynlegur undanfari opinna, friðasamlegra og lýðræðislegra kosninga. Alþjóðasamfélaginu ber í kjölfarið að aðstoða ríkið við að þróa helstu pólitískar, öryggis- og réttarfarslegar stofnanir með öflugum ferlum í anda góðra stjórnarhátta. Bráðabirgðastjórnin hefur dregið upp vegvísi á þessum nótum með aðstoð Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins og ef vel til tekst er þarna ljósið í myrkrinu. Fyrsta skrefið er því að íbúar landsins átti sig á því að þeir þurfa að koma saman og útkljá deilumál sín til þess að byggja upp þjóðina að nýju. Lausnin er því fyrst og fremst í höndum íbúa Mið-Afríkulýðveldisins. Þeir verða að bregðast skjótt og vel við en við erum hér til þess að hjálpa þeim á leið til þess að öðlast reisn á ný og byggja upp landið að nýju.”