Loftslagsbreytingar: Eldfjöll eiga ekki roð við manninum

0
1222
Elfjölld og CO2
Photo: Helgi Halldórsson

Jafnvel þótt eldfjöll spúi eldi og eimyrju, ösku og reyk út í andrúmsloftið, komast þau ekki í hálfkvisti við mengun af völdum mannanna. Eldgosið í Fagardalsfjalli á Reykjanesi hefur þó vissulega í för með sér losun á gróðurhúsalofttegundum. Hún er hins vegar ekki veruleg ef miðað er við bíla, flug og verksmiðjur og aðra mengunarvalda mannkynsins.

Íslendingar hafa horft upp á eldgosið á Reykjanesi þeyta glóandi hrauni upp í loftið. Eins og öll heimsbyggðin sáum við öskuna frá Eyjafjallajökli fyrir áratug valda skakkaföllum. Ekki er að undra að fólk spyrji sig hvort eldfjöllin mengi ekki meira en við mennirnir.

Eldgos og CO2
Mynd: Helgi Halldórsson

Sævar Helgi Bragason jarðfræðingur sem starfar hjá Umhverfisstonfun segir að svo sé ekki.

„Við sjáum með eigin augum eldfjöllin þeyta hrauni og ösku upp í loftið. Hins vegar er þetta minni mengun en kemur frá okkur sjálfum og dælt er í andrúmsloftið. Það tæki eldgosið á Reykjanesi tvö til fjögur ár að menga jafn mikið og við gerum á einu ári,“ segir Sævar í viðtali.

Þriggja dagar losun mannsins

Hann bendir á að 45-50 eldfjöll eru yfirleitt virk samtímis á jörðunni. Auk Fagradalsfjalls má nefna að Etna á Sikiley gýs eins og svo oft áður þessa stundina. Þá veldur La Soufrière á St. Vincent-eyu í Karíbahafinu nú miklum usla.

Öll þessi eldgos losa koltvísýring í andrúmsloftið. Eru þau ekki að valda loftslagsbreytingum? Jú hugsanlega en losun þeirra er dvergvaxin við hlið losunar mannanna.

„Það tekur mannkynið aðeins þrjá daga að losa jafn mikinn koltvísýring og öll eldfjöll jarðar á einu ári,” segir Sævar Helgi.

Eldfjöllum verður tæpast kennt um ef við náum ekki að uppfylla Parísarsamninginn um viðnám við loftslagsbreytingum. Þar að auki geta þau að vissu marki verið loftslagsvæn.

Hraunið bindur

Eldgos og CO2
Mynd: Helgi Halldórsson

„Vissir þú að þrátt fyrir að um 3000 tonnum af koldíoxíði (CO2) losni frá gosstöðvunum í Geldingadal á hverjum degi er bindigeta hraunsins sem þar myndast margfalt meiri?” segir í færslu á Facebook síðu Carbfix-verkefnisins. Það verkefni snýst einmitt um að binda koltvísýring í berg í orkuverinu á Hellisheiði.

„Í þessu glænýja basaltbergi eru bestu aðstæður fyrir steinrenningu á CO2…Þannig gæti það hraun sem rann fyrstu vikuna frá gosstöðvunum bundið um 300,000 tonn af CO2 – sem samsvarar ársútblæstri um það bil þriðjungs bílaflotans á Íslandi.”

Sigríður Hagalín: Líkurnar voru nánast engar 

Vitaskuld kom eldgosið í Fagradal á óvart enda hafði ekki gosið á þeim slóðum í tæp 800 ár eða frá því á ritunartíma Íslendingasagna, innrás Mongóla í Japan og níundu krossferðarinnar.

Eldgos og CO2
Mynd: Helgi Halldórsson

Ekki virðist gosið þó hafa komið Sigríði Hagalín Björnsdóttur rithöfundi á óvart því fjórum mánuðum fyrir gos kom út skáldsaga hennar Eldarnir  þar sem vísindakona stendur í ströngu við að glíma við eldgos á Reykjanesi og í ástalífi sínu.

„Ég vissi að Reykjanesskaginn væri eldvirkt svæði þar sem gæti gosið hvenær sem er, og fannst áhugavert að nota hann sem sögusvið fyrir skáldsögu, vegna þess að hann er í raun bakgarður höfuðborgarinnar,” segir Sigríður Hagalín í viðtali við vefsíðu UNRICs. „Svæði sem við vitum af og ferðumst um á hverjum degi án þess að velta fyrir okkur eyðingaröflunum undir fótum okkar”

Hún segir að þrátt fyrir þetta hafi líkurnar á því að það gysi svo skömu eftir að bókin kom út hafi verið „nánast engar.”

Ekki skyggn

Eldgos og CO2
Mynd: Helgi Halldórsson

„Viðbrögðin hafa verið dálítið yfirþyrmandi – ekki síst vegna þess að sumum finnst fyrsta bókin mín, Eyland, hafa spáð fyrir um einangrunina vegna Covid-faraldursins. Ég þarf næstum daglega að svara þeirri spurningu hvort ég sé skyggn (ég er ekki skyggn) og fólk sendir mér í gríni tillögur að söguefni næstu bókar („Viltu ekki skrifa næst um grunnskólakennara sem vinnur í lottó og lætur drauma sína rætast?“) Allt mjög elskulegt og gaman.”

En að mati Sigríðar er það fremur bókmenntaáhugi örlaganna en skyggnigáfa hennar sem veldur. „Ég hef sjálf þá kenningu að örlögin lesi bækur, og þau séu opin fyrir nýjum hugmyndum.”

Bókin fékk óvænta auglýsingu, seldist vel og útgefandinn fór hlæjandi í bankann. En þjóðin kættist líka, sem er að mörgu leyti merkilegt.

Fagradalsfjall sem mannsnafn

„Í hvert sinn sem gýs verður hálfgerð þjóðhátíð í landinu, allir þurfa að fara og skoða gosið, þú ert eiginlega ekki sannur Íslendingur nema þú hafir séð gosið,” bendir hún á. “Flestar aðrar þjóðir óttast og hata eldfjöllin sín, við skírum börnin okkar í höfuðið á þeim, eins og ástkærum, stórlyndum frænkum. Það verður ekki þverfótað fyrir litlum stúlkum sem heita Hekla og Katla, í höfuðið á hættulegustu eldfjöllum landins. Ég veit ekki til þess að neinn hafi gefið barni nöfn eins og Krakatá og Tambora. Svo ég vitni í bókina mína: Okkur er ekki viðbjargandi, við drögumst að eldinum eins og náttfiðrildi,” segir Sigríður Hagalín.

Ekkert barn hefur þó verið skírt Eyjafjallajökull hvað þá Holuhraun. Of snemmt er að spá hvort einhver eigi  eftir að gegna nafninu Fagradalsfjall, nú þegar mannanafnadeild er á undanhaldi. En hver veit hvort tími hvorugkynsnafna sé ekki að renna upp nú  kynhlutleysi vex fiskur um hrygg.