Loftslagsbreytingar: Og nú freyðir vínið frá Danmörku

0
348
Vínakur. Mynd
Vínakur. Mynd: Karsten Wurth/Unsplash

Loftslagsbreytingar. Vínrækt. Norræn vín. Þau lönd sem fyrst koma upp í hugann þegar vínframleiðsla í Evrópu er annars vegar eru sjálfsagt Frakkland, Ítalía og Spánn. Á síðustu þrjátíu árum hafa hins vegar vín bæst við frá Norðurlöndunum, sérstaklega Danmörku.

Svo fjarri var víndrykkja hinum öl- og mjaðarþambandi víkingum að þegar þeir réðust á klaustur í Evrópu til forna, drápu þeir og nauðguðu og stálu öllu steini léttara, en létu vínámúr í friði. Töldu munkar þetta til marks um náð drottins.

Nú er öldin önnur.

Sjálfbærar lausnir

Vínbóndinn Sven Moesgaard.
Vínbóndinn Sven Moesgaard. Skærsøgaard vin

Sjálfbærar lausnir eru miðlægar í Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Nýsköpun skiptir þar miklu máli en stundum snúast þær líka um að nýta nýjar aðstæður sem skapast hafa af völdum loftslagsbreytingar, til góðs eða ills.

 Daninn Sven Moesgaard lét reyna á það þegar hann hóf vínframleiðslu í Danmörku fyrir rúmum aldarfjórðungi. Nú hefur hann unnið til fjölda verðlauna fyrir vín sín.

Skærsøgaard-akurinn.
Skærsøgaard-akurinn. Mynd: Skærsøgaard vin

 Moesgaard hóf vínræktun í Skærsøgaard nærri Kolding 1995. Á þeim tíma hljómaði hugmyndin um dönsk vín eins og lélegur brandari.  Nokkrum árum síðar gaf Evrópusambandið Danmörku og Svíþjóð grænt ljós á að rækta vín til sölu á markaði. Hins vegar liðu nokkur ár þar til dönsk vín voru tekin alvarlega.

Seint á fyrsta áratug aldarinnar unnu dönsk vín til sinna fyrstu verðlauna. „Það eru fordómar gagnvart vínum frá minna þekktum svæðum. Þess vegna er blind-prófun stunduð í samkeppnum,“ útskýrir Sven Moesgaard. 

  Sú var raunin þegar Dons Cuvée vann silfurverðlaun fyrir freyðivín  í alþjóðlegri vín-samkeppni „Effervescents du Monde”   2007. Fleiri verðlaun á þessum tíma festu Danmörku í sessi á vínkortinu.  

Loftslagsbreytingar

Vín.
Vín. Mynd: Kym Ellis/Unsplash

 Til að framleiða gott vín þarf temprað loftslag, hvorki of kalt né of heitt. Þegar hiti hækkar vegna loftslagsbreytinga, munu sum vínræktarhéruð í suðri heltast úr lestinni og meira að segja ræktun tegunda á borð við  maís verður ómöguleg, segir Sven Moesgaard.  

„Ef vín er ræktað í of miklum hita, er ekki næg sýra og það skortir ferskleika. Vínræktendur í suður Evrópu brugðust fyrst við hlýnun jarðar, með því að færa ræktunina í suðurhlíð fjalla því dalirnir voru orðnir of hlýir. Nú hafa þeir fært hana í norðurhlíðarnar þar sem er svalara.“

Sven Moesgaard bendir þó á að bæta megi sýru við frá öðrum héruðum, en þess gerist ekki þörf í Danmörku, vegna hagstæðra veðurskilyrða.

Vínframleiðslan mun halda áfram að breytast og þróast og Moesgaard segir að samfara loftslagsbreytingum muni áherslan færast yfir á aðrar vínþrúgur.

„Eftir fimmtíu ár munum við hafa sömu tegundir og er notaðar nú í Frakklandi og á Spáni,“ segir hann.    

Burt með eitrið

Í sjálfbærri vínframleiðslu skiptir tvennt miklu máli: flutningar og skordýraeitur. Kolefnissporið er vitaskuld miklu stærra ef keypt er vín sem á rætur að rekja til landa hinum megin á hnettinum.  Því er ekki að leyna að glíma þarf við ýmiss konar náttúrulegar hindranir við vínræktun, en til eru fleiri lausnir en illgresis- og skordýraeitur.  

„Starf okkar byggist á tilteknum hreinleika-viðmiðum sem eru býsna ólík því sem gerist og gengur víða, þar sem illgreisis- og skordýraeitur er notað. Þess í stað ræktum við tegundir sem standast vel sveppa-faraldra.“

 Árið 2018 fékk DONS vínsvæðið vottun eða „appellation“ og  Skærsøgaard var’ þar með nyrsta viðurkennda vínræktarsvæði Evrópu. DONS freyðivín Skærsøgaards eru vottuð af Evrópusambandinu og geta einungis komið frá tilteknum stað sem býr yfir tilteknum eiginleikum. „Skilgreint svæði: Bærinn Dons nærri Kolding í Danmörku; ræktun fer fram nánar tiltekið í flensujöklamöl og sandseti í dal innan vémarka Dons-bæjar í Almind-héraði.“