Loftslagsmál: Noregur stillir sér upp við hlið ESB

0
465

 klimaforpliktelser1

30.mars 2015. Norðmenn hafa kynnt Sameinuðu þjóðunum áætlun um að minnka útblástur lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum um 40% fyrir 2030.

40% eru reiknuð út frá útblæstri árið 1990 eins og venja er í alþjóðasáttmálum um loftslagsmál. 

Noregur er þriðji aðili sem leggur fram áætlanir sínar en Evrópusambandsríkin 28 og Sviss hafa nú þegar sýnt sín spil. 

Stefnt er að því að nýr Loftslagssáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði samþykktur og undirritaður á ráðstefnu í París í desember. Öllum þátttökuríkjum ber að skila áætlunum sínum tímanlega fyrir ráðstefnuna.

„Markmið okkar eru vel innan þeirra marka sem nauðsynleg eru til að hitaaukning á jörðinni verði innan við tvær gráður,” segir Tine Sundtoft, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs.

Ætlun Norðmanna er að ná markmiðum sínum í náinni samvinnu við Evrópusambandið og aðildarríki þess. Um helmingur útblásturs Noregs er innan vébanda Viðskiptakerfis Evrópusambandsins fyrir losunarheimildir (ETS). Stefnt er að því að Noregur semji við Evrópusambandið um að ná markmiðunum í sameiningu, en ef samkomulag næst ekki ætla Norðmenn að gera slíkt upp á eigin spýtur.

„Við þurfum aukna alþjóðlega samvinnu til að ná loftslagsmarkmðum,” segir Sundtoft. „Sameiginlegar aðgerðir Noregs og Evrópusambandsins eru skref í rétta átt. Bæði Noregur og Evrópusambandið hafa metnaðarfull markmið og líta á aðgerðir í loftslagsmálum sem langtíma umbreytingu yfir í útblásturssnauð samfélög. Með því að tengja loftslagsaðgerðir okkar náum við betri árangri,” segir Sundtoft ráðherra.

Samvinna við Evrópusambandið um 40% markmiðið myndi þýða að ekki yrði sótt inn á alþjóðlegan losunarmarkað utan Evróopu til að hrinda áætlununum í framkvæmd. Noregur mun íhuga að auka niðurskurð fram yfir 40% ef það kann að stuðla að metnaðarfyllra samkomulagi í París á heimsvísu.

(Heimild: Norska utanríkisráðuneytið).