Loftslagssáttmáli: Náið samstarf við ESB

0
464

JÖkulsárlón
1.júlí 2015. Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt um landsmarkmið í loftslagsmálum til 2030.

Umhverfisráðuneytið tilkynnti í gær um landsmarkmið Íslands í aðdraganda Parísarfundarins, þar sem ganga á frá heimssamkomulagi um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland mun leitast við að ná sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990.

Stofnun Sameinuðu þjóðanna um rammasáttmálann um loftslagsmál (UNFCC) segir á heimasíðu sinni að Ísland sé 42.ríkið sem skilar inn landsmarkmiðum sínum sem sjá má hér

Kína og Suður-Kórea skiluðu einnig inn landsmarkmiðum sínum fyrir mánaðamót og hafa nú alls 43 ríki gert það. Kína er næststærsta hagkerfi heims að mati Sameinuðu þjóðanna og Suður-Kórea fjórtánda stærsta. Í yfirlýsingu sem Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gaf út í gær sagði hann að með tilkynningum um landsmarkmið landanna tveggja hefðu ríki sem standa fyrir 60% af losun koltvýserings gert það. 

„Tilkynningar beggja ríkja eru mikilvægt framlag og auka líkur á því að nýtt og efnismikið samkomulag til höfuðs loftslagsbreytingum náist á COP-21 ráðstefnunni í París í árslok,“ sagði Ban í yfirlýsingu.

Aðalframkvæmdastjórinn benti á að landsmarkmiðin myndi einungis gólf, en ekki þak á aðgerðum. „Markmiðin sem borist hafa eru mikilvægur liður í að mynda skriðþunga og traust á leið okkar til COP-21 í París.“

Markmið Íslands

Markmið Íslands eru framhald af því fyrirkomulagi sem nú er við lýði á 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, þar sem Ísland er hluti af sameiginlegu losunarmarkmiði Evrópuríkja á tímabilinu 2013-2020, segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Ísland er nú aðili að sameiginlegu markmiði með 28 ríkjum ESB á 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar 2013-2020. Nánar er kveðið á um skuldbindingar Íslands innan hins sameiginlega markmiðs í tvíhliða samningi Íslands við ESB, sem skrifað var undir í apríl sl. Um 40% losunar er í sameiginlegu viðskiptakerfi Evrópulanda (ETS), þar sem fyrirtæki fá úthlutað heimildum og geta uppfyllt kröfur með minnkun losunar eða verslun með heimildir. Hinn hluti losunarinnar er á ábyrgð ríkja og þarf Ísland að draga úr nettólosun um rúmlega 20% til 2020 miðað við 2005, segir í tilkynningu frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Mynd: UNFCCC/JasonParis (Flickr)