Verðum að umbreyta efnahagslífi heimsins

0
376

chritiana Figueres unric portrait press

6. febrúar 2015. Æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna á sviði loftslagsmála segist bjartsýn á samþykkt sáttmála á ráðstefnu í París í árslok. Embættismaðurinn, Christiana Figueres, framkvæmdastjóri UNFCC,  Rammasáttmálans um loftslagsmál leggur hins vegar áherslu á að baráttan gegn loftslagsbreytingum séu ferli og nauðsynlegar breytingar á efnahagslífi heimsins gerist ekki á einni ráðstefnu eða með tilteknu samkomulagi.

 „Þetta er sennilega erfiðasta verkefni sem við höfum nokkru sinni þurft að leysa“, sagði  Figueres á blaðamannafundi hjá UNRIC í Brussel.  „Þetta er í fyrsta skipti í sögu mannkynsins sem við tökumst á hendur það verk að breyta viljandi efnahagsþróunarmódeli heimsins. Við ætlum að breyta á tilteknu árabili því efnahagsþróunarmódeli sem hefur verið ríkjandi í að minnsta kosti 150 ár eða frá iðnbyltingunni. Þetta gerist ekki í einu einu vetfangi í einum samningi og alls ekki á einni ráðstefnu. Þannig gerist þetta ekki. Vegna þess hversu djúpstæð umbreytingin er, er þetta óumflýjanlega langt ferli.“

Viðræður hefjast í næstu viku í Genf um svokallað „Lima-uppkast“ sem samþykkt var á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lima í Perú. Búist er við tveimur hrinum viðræðna fyrir Loftslagsráðstefnuna í París í desember á þessu ári.

Núverandi uppkast er 39 síður, þar á meðal valkostir, undir-valkostir og svigar. Samningamenn í Genf eiga að „stýra og straumlínulaga“ textann og skila af sér 13.febrúar. Figueres segir að ólíku sé saman að jafna ferlinu sem nú stendur yfir og aðdraganda Kaupmannahafnarfundarins 2009 en þá var síðast gerð tilraun til að ganga frá nýjum loftslagssáttmála, til að taka við að Kyoto-viðaukanum um minnkun losunar koltvíserings í andrúmsloftið.

Figueres benti á að ekkert uppkast hafi legið fyrir í Kaupmannahafn, en nú liggi eitt slíkt fyrir ári fyrir fund og áætlun um að sex mánuðum fyrir fund, liggi fyrir viðræðu-texti fyrir fundinn sem sendur verði ríkisstjórnum aðildarríkja.

Christiana Figueres frá Costa Rica var skipaður framkvæmdastjóri (executive secretary) Rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um Loftslagsbreytingar (United Nations Framework Convention on Climate Change (UNFCCC)) af  Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra samtakanna 2010 og endurskipuð til þriggja ára í júlí 2013.

Mynd: Christiana Figueres á blaðamannafundi UNRIC. UNRIC/Philippe Chabot.