Lokunar Guantánamo krafist á 14 ára afmæli

0
434
Guantanaomo

Guantanaomo

12.janúar 2016. Mannréttindasérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna og ÖSE hvetja Bandaríkjastjórn til að binda enda á refsileysi fyrir afbrot framin í nafni stríðsins gegn hryðjvuerkum.

Í yfirlýsingu í tilefni fjórtán ára afmælis Guantánamo fangabúðanna, hvetja þeir til að þeim verði þegar í stað lokað.

 Mannréttindasérfræðingarnir hvetja í opnu bréfi aríkisstjórn Bandaríkjanna til að binda enda á refsileysi við brotum á mannréttinda- og mannúðarlögum sem framin hafa verið í nafni „stríðs gegn hryðjuverkum.” 

„Langtíma öryggissjónarmiðum er best þjónað með því að brjóta blað í viðbrögðum við hryðjuverkum sem tíðkast hafa eftir árásina á Bandaríkin 11.september 2001,“ segir í yfirlýsingu sérfræðinganna. Þeir eru Juan E.Méndez, sérstakur málflytjandi um pyntingar, Ben Emmerson, um mannréttindi og aðgerðir gegn hryðjuverkum, Mónica Pinto, um sjálfstæði dómsvaldsins, Seong-Hil Hong formaður vinnuhóps um geðþótta fangelsanir og Micahel Georg Link, forstjóri skrifstofu ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu) um lýðræðislegar stofnanir og mannréttindi.

„Öllum sem hlut eiga að máli, þar á meðal í æðstu stöðum, ber að standa reikningsskil fyrir að gefa skipanir um eða framkvæma ólöglega fangaflutninga, rekstur leynilegra fangelsa, geðþótta handtökur óbreyttra borgara eða hinar svokölluðu „hertu“ yfirheyrslu-aðferðir, í nafni baráttunnar gegn hryðjverkum“, segja þeir.

Sérfræðingarnir minna á að nærri eitt hundrað fangar hýrast enn í Guantánamo og að gerræðisleg fangavist án réttarhalda, þrífist þar utan seilingar bandarísks réttarríkis og utan valds venjulegra bandarískra dómstóla, þrátt fyrir fyrirskipun sem Barak Obama, forseti undirritaði í janúar 2009 um að flytja fanga þaðan og loka fangelsinu innan árs.

„Þeir hafa gleymst eftir að Bandaríkin tóku upp „stríð gegn öfgastefnum“ í stað „stríðsins gegn hryðjuverkum.“ Það var gert án þess að viðurkenna, íhuga og bæta fyrir brot á grundvallarmannréttindum,“ segja þeir.

Í opnu bréfi sínu hvetja sérfræðingarnir til þess að bundinn verði þegar í stað endi á áframhaldandi gerræðislega fangavist við Guantánamo-flóa og að föngum verði sleppt og verði annað hvort leyft að fara til heimalands síns eða þriðja ríkis eftir atvikum; eða til fangelsa í Bandaríkjunum svo hægt sé að sækja þá til saka fyrir venjulegum dómstólum.

„Bandaríkjastjórn ber einnig að tryggja að núverandi og fyrrverandi föngum, sem og einstaklingum sem haldið hefur verið leynilega föngnum, hafi fullan aðgang að úrræðum til að bæta gerræðislega handtöku, pyntingar og illa meðferð,“ segja sérfæðingar Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Sjá opið bréf sérfræðinganna í heild hér.