Malta í Öryggisráðinu: Dvergríki leysir dvergríki af hólmi

0
64
Malta
Valetta, höfuðborg Möltu. Mynd: Micaela Parente/Unsplash

Öryggisráðið. Malta, fámennasta aðildarríki Evrópusambandsins, tók sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um áramót. Malta er þó síður en svo minnsta ríki til að setjast í ráðið.

Malta var eitt fimm ríkja sem kjörin voru til setu í ráðinu til næstu tveggja ára 2023 og 2024. Hin voru Ekvadór, Japan, Mósambík og Sviss. Þetta er í annað sinn sem Malta er kjörin til setu í Öryggisráðinu en Mósambík og Sviss setjast þar í fyrsta skipti.

Ian Borg utanríkisráðherra Möltu eftir að eyjan var kosin til setu í Öryggisráðin
Ian Borg utanríkisráðherra Möltu eftir að eyjan var kosin til setu í Öryggisráðinu. Mynd: Manuel Elias/UN Photo.

Miðjarðarhafseyjan hyggst leggja áherslu á málefni barna í hernaði, efla læsi og réttindi kvenna. Þá er Maltverjum í mun að efla vitund um hækkun yfirborðs sjávar sem brennur á mörgum eyríkjum um allan heim, þar á meðal Möltu.

Leið til áhrifa

„Við teljum að leiðin til þess að hafa áhrif á ráðið sé að sannfæra önnur aðildarríki þess, þar á meðal þau sem hafa þar fast sæti og vinna með þeim”, sagði Rodrick Zerafa frá utanríkisráðuneyti Möltu í viðtal við Euronews. „Stærð ríkis er ekki ráðandi um hvernig ályktun er orðuð eða nálgun einstakra málefna.”

St. Vincent og Grenadines-eyjar eru í suðurhluta Karíbahafsins.
St. Vincent og Grenadines-eyjar eru í suðurhluta Karíbahafsins. Mynd: Isaw/Unsplash

Malta mun fjölga í fastanefnd sinni hjá Sameinuðu þjóðunum, en að auki getur ríkið fæt sér í nyt aðstoð diplómata Evrópusambandsins og ráðgjöf.

Malta er í hópi fámennustu ríkja sem setið hafa í Öryggisráðinu, en engan veginn það minnsta. St.Vincent og Grenadines-eyjar hafa setið í ráðinu undanfarin tvö ár. Íbúar Möltu eru 518 þúsund en aðeins rúmlega 104 þúsund manns búa á St.Vincent og Grenadines eyjum.