Mamma af hverju ertu að meiða mig?

0
841
Najmo
Líf Najmo gjörbreyttist á Íslandi.

Najmo Fiyasko Finnbogadóttir er glaðleg og hláturmild en frásögn hennar er saga sem engin ung kona ætti að hafa þurft að upplifa. Fyrir tuttugu og eins árs aldur hefur hún þurft að sæta misþyrmingu á kynfærum, vera neydd í hjúskap á barnsaldri, særst í hryðjvuverkaárás, flúið heimaland sitt yfir Sahara og Miðjarðarhafið og sest að á Íslandi fjarri fjölskyldu og heimalandi.

En saga hennar er líka saga um von og því kjörið að gefa henni gaum á Aljóðlegum baráttudegi kvenna 8.mars.  

Af hverju?

„Þetta byrjaði allt með skrýtinni stelpu sem talaði um það sem hún hafði áhuga á,“ segir Najmo Fiyasko Finnbogadóttir brosmild í herbergi sínu í íbúð sem hún deilir með öðrum í Lundúnum. Najmo er forvitin að eðlisfari og hefur frá blautu barnsbeini leitað svara. Og spurningin sem hún spurði sig þegar hún var lítil var: „Af hverju? Hvers vegna láta fjölskyldur barns misþyrma kynfærum lítillar stúlku? Hvers vegna eru 11 ára gamlar stelpur látnar giftast þrisvar sinnum eldri manni? Hvers vegna láta konur dætur sínar ganga í gegnum sársaukafullla reynslu sem þær sjálfar hafa þurft að upplifa á eigin líkama?

 „Höfuðið á mér hefur alltaf verið fullt af spurningum. Og ég fékk aldrei nein svör,“ segir Najmo.

 Hún fæddist í Sómalíu 1998, ein níu systkina. Faðir hennar var myrtur þegar hún var aðeins 11 ára gömul og frændi hennar ákvað að hún skyldi giftast öðrum 32 ára gömlum frænda. Að sögn Najmo er sú trú ríkjandi í Sómalíu að stúlkur skuli giftast ungar því þær þurfi karl til að vernda þær.

Mannréttindabrot

 Að áliti Sameinuðu þjóðanna er barna-brúðkaup mannréttindabrot og UNESCO telur að 45% sómalskra kvenna séu giftar fyrir 18 ára aldur.

 „Öll fjölskylda mín vildi þetta hjónaband,“ rifjar Namo upp. „Það sem vakti undrun mín og særði mig mest var að konurnar í kringum mig, frænkur, nágrannar, allar vildu þetta og engin studdi mig. Konurnar þrýstu á mig að samþykkja þetta og ég var bara lítil stelpa.“

 Eftir brúðkaupið hjálpaði bróðir Najmo henni að flýja til Mogadishu þar sem hún var tvö ár í felum þar til hún særðist á báðum fótum í hryðjuverkaárás. Fjölskylda hennar fann hana á sjúkrahúsi og frændi hennr krafðist þess að hún snéri aftur til eiginmannsins. Þess í stað flúði hún til ættingja í Súdan með hjálp frænda. Þar var henni ráðlagt að fara til Evrópu og hún hélt í 28 daga svaðilför á snærum smyglhrings yfir Sahara, um Líbýu og yfir Miðjarðarhafið á batskænu.

Setið um konur

 „Þetta var ferð um helvíti,“ segir Najmo, „og góður vinur lifði hana ekki af.“

Næsti viðkomustaður voru flóttamannabúðir á Möltu. Þar fór sómalskur maður sem bjó í Þýskalandi á fjörur við hana og rómaði fegurð hennar.

 „Slíkir menn sitja alls staðar um konur sem standa höllum fæti. Hann sagði: „Ég vil kvænast þér.“ Í okkar sið þarf að gjalda fjölskyldu brúðarinnar heimamund. Hann sagðist vilja komast í tengsl við fólkið mitt og senda fé til að hjónabandið gæti átt sér stað. Ég spurði „Af hverju læturðu mig ekki fá peninginn og ég kem því til skila?“ Hann sendi mér féð og hann heyrði ekki aftur frá mér,“ segir Najmo og hlær.

Eftir að hafa verið um skeið í Þýskalandi og Danmörku fékk Najmo falsað belgískt vegabréf og var sagt að taka flug til Kanada. Vélin millilenti á Íslandi og henni var ráðlagt að þykjast vera ferðamaður. Hún var ráðvillt, talaði aðeins sómölsku, með 70 evrur í vasanum og hafði aldrei séð snjó áður. Íslensk yfirvöld stöðvuðu för hennar og henni var komið til barnaverndaryfirvalda. Þegar hér var komið við sögu var Najmo 16 ára og hafði verið í þrjú ár á ferð sinni frá Sómalíu.  

 Íslensk yfirvöld spurðu hvaða óskir hún hefði. „Útvegið mér fjölskyldu og kennslu. Annað get ég séð sálf um,“ svaraði hún.

 „Nota hvert tækifæri til að vekja til vitundar“

Najmo og fósturfaðir hennar.
Najmo með Finnboga fósturföður sínum.

 Najmo var komið í fóstur og hún tengdist Finnboga fósturföður sínum fljótlega sterkum böndum. Margt kom henni spánskt fyrir sjónir á Íslandi. Hvarvetna sá hún konur við vinnu. Stelpur dönsuðu, fóru í likamsrækt og gátu hagað lífi sínu eins og þeim sýndist.

 „Ísland opnaði augu mín. Ég hafði bara umgengist Sómali alla ævi, en þegar ég kom til Íslands sá hversu margt við gerðum rangt. Ég sat í herbergi mínu á hverjum degi og velti fyrir mér: „Hvað get ég gert núna?“. Ég var bara nemi og það var ekki margt sem ég gat aðhafst, en ég hugsaði með mér: „Hvað með að nota samfélagsmiða og deila skoðunum mínum með hverjum þeim sem vill hlusta.“?  

Myndbönd

 Najmo tók upp myndbönd og hlóð upp á samfélagsmiðla og talaði tæpitungulaust á sómölsku um það sem henni lá á hjarta. Barnabrúðkaup, kynfæramisþyrmingar og réttindi kvenna og stúlkna. Fósturforeldrar hennar studdi við bakið á henni og komu upp litlu myndveri í herbergi hennar á Íslandi.

 Áhangendum hennar á Facebook og YouTube fjölgaði óðfluga og nú fylgjast meir en 75 þúsund með henni.

 „Ég nota hvert tækifæri til að vekja til vitundar,“ segir Najmo. „Þessar stelpur eru eins og við. Þær vilja sama og við viljum. Fín föt, mála sig, fara út og skemmta sér. En þær eiga börn.“

 “Karlar geta búið með eiginkonu í 20 ár án þess að sjá hana nakta.”

 Þegar Najmo giftist hafði hún þegar sætt misþyrmingu á kynfærum, umskurði eða FGM. Það er þegar hluti eða öll ytri kynfæri hafa verið skorin á brott, en þessu sæta 98% sómalskra kvenna. Kynfæraskurður stendur djúpum rótum í sómalskri menningu. Óumskornar konur eru taldar óhreinar og fáir karlar vilja giftast þeim.   

 Athöfnin fer þannig fram að tilteknar konur nota hnífa, skæri eða rakblöð til að skera á brott ytri kynfæri á meðan kvenkynsættingjar halda henni fastri.

 Þótt Najmo sé orðin vön því að segja sögu sína á opinskáan hátt á hún enn erfitt með að tala um sársaukafyllstu atburði lífs síns, eins og þegar frændi hennar blekkti hana fyrir hjónabandið.

 „Frændi sagði mér að enginn maður mndi snerta mig fyrr en ég væri orðin 13. En það var ekki rétt. Fyrsta kvöldið deplaði eiginmaðurinn ekki auga áður en hann nauðgaði mér. Kona sem er umskorin getur ekki gengið í 3-4 daga eftir að hafa haft samfarir í fyrsta skipti.“

Kynfæraskurður hættulegur

 Margir átta sig ekki á hversu kynfæraskurður er hættulegur heilsu kvenna. Aðgerðin tekur hálftíma en afleiðingarnar vara alla ævi. Eftir aðgerðina fá margar stúlkur sýkingar og blæðir mikið og mega búast við erfiðum fæðingum og losun líkamsvessa. 

„Karlar geta búið í 20 ár með konu án þess að sjá kynfæri þeirra,“ segir Najmo. „Þeir vita ekki hvernig við lítum út vegna bannhelgis trúarbragða og menningar. Feimni er talin siðleg í samskiptum kynjanna. Það á að slökkva ljósið. Þessa vegna nota ég módel.“

 Það sem Najmo á við er afsteypa af kynfærum konu í fullri stærð. Skurði (FGM) er skipt í fjórar flokka eftir því hversu umfangsmikil aðgerðin er. Sú alvarlegasta felur í sér brottnám snípsins að fullu, ytri barma og hluta þeirra innri. Saumað er fyrir að hluta og aðeins skilið eftir lítið gat fyrir þvag og tíðablóð. Nærri tveir-þriðju sómalskra kvenna sæta þess konar skurði.  

„Ég nota afsteypun og sýni hvað er gert og að lokum spyr ég „Mamma, hvers vegna gerir þú mér þetta? Mamma, af hverju meiðir þú mig?“ Margar mæður hafa sent mér skilaboð ogsagt: „Við vissum ekki hvað viðgerðum. Móðir mín gerði þetta við mig. Amma hennar gerði þetta við hana.“ Feður senda mér skilaboð og segja: „Við vissum ekki hvernig aðgerð þetta væri. Við munum ekki leyfa konum okkar að gera þetta framar.“ Konur eru ekki aðgera þetta vegna þess að þær hati dætur sínar. Þær gera þetta til að þóknast körlum.“

MID Show
MID Show er vettvangur Najmo á samfélagsmiðlum.

Mótspyrna

 Tilfinningaþrungin nálgun Najmo snertir við mörgum, en það er líka snörp mótspyrna. Það er ekki hlaupið að því að breyta djúpstæðum, menningarbundnum venjum. Najmo hefur verið hótað margsinnis lífláti og er sökuð um að vera of vestræn og hafa orðið fjölskyldu sinni til skammar. Sumir nánustu vina hennar biðja hana um að fara varlega en það er svo margt sem hún vill ræða.  

 „Mér er sama þótt mér sé hótað. Ég fer hvert sem mér sýnist, og geri hvað sem mér sýnist. Ég meina, hver ætlar að drepa þessa skrýtnu stelpu, þegar það er svo mikið af mikilvægara fólki?“ spyr Najmo sposk.

 Hún er meðvituð um að það þurfi að finna rétta leið til að tjá sig um erfið menningarbundin fyrirbæri og henni er tíðrætt um hvernig best sé að haga samskiptum við áheyrendahóp sinn.

  „Í hverju samfélag er ákveðin leið til að nálgast hlutina. Maður verður að tala sama mál og sýna hlutina. Við verðum að sýna karlmönnum þann sársauka sem við þurfum að þola. Og kenna mæðrunum. Við verðum að finna tiltekna leið til að nálgast hvert samfélag fyrir sig.“

 “Þessar stelpur eru eins og við.”

 Frá því að hún byrjaði að búa til myndbönd í herberginu sínu heima á Íslandi, hefur Najmo boðist að tala á vegum Evrópusambandsins á degi stúlkubarnsins og á norrænni ungmennaráðstefnu Amnesty International. Nú leggur hún stunda á alþjóðlega fyrirtækjastjórnin í Vestur-Lundúna háskólanum og á sér marga framtíðardrauma.  Hún hefur ásamt þremur öðrum búið til ákveðinn vettvang fyrir málflutning sinn. Upp úr myndböndunum sem framleidd voru í herberginu á Íslandi hefur sprottið samskiptamiðla-vettvangurinn MID SHOW. Hún vonist til að með tíð og tíma muni MID SHOW þróast upp í margar rásir þar sem fjallað verði um félagsleg málefni sem snerta Sómali.

 Ef þú hefur sögu sem þú vilt segja verður þú að finna leið til að koma henni á framfæri,” segir Najmo. „Við getum látið hylja andlit en ég verð þreytt á því að fólk segi að ég spinni upp sögur. Við viljum að fórnarlömb tali sínu máli.“

Langtímaplan hennar er að verða forseti Sómalíu. Ekki vegna þess að hún vilji taka að sér forystu heldur vegna þess að hún vill sýna að konur geti allt. Þegar hún er spurð hvernig líf hennar hefði æxlast ef hún hefði hvergi farið, andvarpar Najmo. „Ég hefði sætt mig við ástandið eins og milljónir og milljónir stúlkna hafa gert fyrir mína tíð.“

Kvenfrelsi gefur von

 Saga kvenfrelsisbaráttunnar á Vesturlöndum hefur gefið Najmo von um að breytingar gert líka orðið í Sómalíu. Hún segist finna á að herferð hennar á samskiptamiðlum hafi  haft áhrif.

 Sómalskar konur á sextugs og sjötugsaldri hafa stöðvað hana úti á götu og þakkað henni fyrir og sagt: „Við höfum þagað alla ævi. Hvert orð úr þínum munni eru okkar orð.“

 Hún er líka ánægð með að karlmenn hafa stutt hana. En hún varar líka þá karla við sem þegja þunnu hljóði. „Allir karlmnn í Sómalíu eru ekki slæmir, en góður mennirnir þegja og svo lengi sem þeir segja ekki neitt eru þeir ekki góðir menn.“

 Breytingar gerast hægt. Faðir Najmo var aktívisti og Najmo vill heiðra minningu hans með starfi sínu. Hún veit líka að hún getur ekki gert allt. Hún hvetur fólk til að ganga til liðs við baráttu hennar gegn mismunun gegn konum og stúlkum.

„Ef þú heldur að aðrar konur sjái um baráttuna fyrir þínum réttindm, þá skjátlast þér. Aðrar konur geta hvatt þig, en þu verður sjálf að vinna vinnuna. Ef þú gerir það ekki, þá mun ekkert breytast hjá þér og sama máli gegnir um dóttur þína.“