Man einhver eftir Darfur?

0
632
Darfur

Darfur

Apríl 2013. Fáir hefðu búist við því að átökin í Darfur ættu eftir að vera að mestu fallin í gleymskunnar dá nú þegar áratugur er liðinn frá þau hófust.

George W. Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna gekk meira að segja svo langt að saka stjórnvöld í Súdan um þjóðarmorð í héraðinu. Átök halda þó áfram í Darfur og flóttamenn hafa fæstir getað snúið aftur heim.

Átök á milli uppreisnarmanna, stjórnahers Súdans og vígasveita honum hliðhollum brutust út í apríl 2003. Að mati Sameinuðu þjóðanna hafa 300 þúsund manns látist og 2.7 milljónir orðið að flýja heimili sín. Báðar stríðandi fylkingar hafa verið sakaðar um margs konar mannréttindabrot. Undanfarið ár hafa þó sést nokkur teikn á lofti um hagstæða þróun. Skrifað var undir samkomulag í Doha í júlí 2012 á milli ríkisstjórnar Súdans og einnar af stærstu uppreisnarhreyfingunum. Í síðasta mánuði bætti önnur uppreisnarhreyfing við undirritun sinni á samninginn.

Fyrr í þessum mánuði (apríl 2013) lauk ráðstefnu til að safna fé til uppbyggingar og þróunar í Darfur til næstu sex ára með því að heitið var 3.7 milljörðum Bandaríkjadala til að standa straum af kostnaði. Þetta var talsvert minna en ríkisstjórn Katar sem hélt ráðstefnuna, hafði vonast eftir (7.2 milljarðar) en mikilvægt skref engu að síður.

En þrátt fyrir þetta hafa bardagar haldið áfram og fyrr í þessum mánuði bárust fréttir um að þúsundir hefðu leitað skjóls hjá sameiginlegri friðargæslusveit Afríkusambandsins og Sameinuðu þjóðanna í Muhajeria og Labado í austurhluta Darfur, eftir árásir og hugsanlega loftárásir á borgir.

Sameiginlegu friðargæslusveitinni var komið á fót 2007 undir nafninu UNAMID og er hlutverk hennar ekki síst að vernda óbreytta borgara. Súdanska stjórnin hefur verið sökuð um að stunda þjóðernishreinsanir eftir að uppreisnin braust út í Darfur 2003 og að beita fyrir sig arabískum vígasveitum, svokölluðum Janjawee. 4. mars 2009 varð Omar Hassan Ahmad al-Bashir, fyrstur sitjandi þjóðarleiðtoga til að sæta ákæru Alþjóðlega glæpadómstólsins (ICC) fyrir glæpi gegn mannkyninu.
Flóttamenn hafa yfirleitt ekki getað snúið aftur heim til eyðilagðra heimaþorpa sinna af ótta við endurteknar árásir. Enn eru dæmi um loftárásir á óbreytta borgara og konur eiga á hættu kynferðislegt ofbeldi. Fréttir berast af nánast daglegum árásum; bílum er stolið, ráðist á hjálparstarfsmenn og rænt og ruplað á skrifstofum þeirra og því er hjálparstarfi þröngar skorður settar til að mæta þörfum fjögurra milljóna íbúa sem reiða sig á mannúðaraðstoð.

Darfur, er hérað í vesturhluta Súdans og er á stærð við Frakkland, en þar búa 6 milljónir manna og skiptast í um eitt hundrað ættbálka.

Mynd: Tælenskir friðargæsluliðar á vegum UNAMID sinna barni með alvarlega augnsýkingu í Buru í vesturhluta Darfur. SÞ-mynd/Albert Gonzalez Farran