Mannréttindayfirlýsingin: Vatnaskil í mannréttindmálum

0
325
Manréttindayfirlýsingin
Manréttindayfirlýsingin

Mannréttindi. Mannréttindadagurinn er haldinn hátíðlegur á alþjóðlegum vettvangi 10.desember ár hvert. Þann dag, árið 1948, samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna Heimsyfirlýsinguna um mannréttindi sem ævinlega er einfaldlega kölluð Mannréttindayfirlýsingin.

Hún hefur verið þýdd á 500 tungumál og er mest þýdda skjal heims. Fulltrúarnir sem tóku saman yfirlýsinguna voru úr öllum heimshornum og höfðu ólíkan lagalegan og menningarlegan bakgrunn.

Réttindi sem vernda ber alþjóðlega

Mannréttindayfirlýsingin
Eleanor D. Roosevelt, frá Bandaríkjunum, (ekkja Franklin Bandaríkjaforseta) formaður mannréttindanefndarinnar og Henri Laugier framkvæmdastjóri félagsmála hjá SÞ á fyrsta fundi um yfirlýsinguna 9.júní 1947.

Í Mannréttindayfirlýsingunni var í fyrsta skipti sett á blað skrá yfir þau grundvallar mannréttindi, sem bæri að vernda alþóðlega. Hún er ekki lagalega bindandi en hefur verið innblástur stefnumótunar og lagasetningar um víða veröld.

Þrjátíu réttindi og frelsi eru tíunduð í Mannréttindayfirlýsingunni, þar á meðal borgaraleg og pólitísk réttindi á borð við rétt til lífs, frelsis og einkalífs. Þar er einnig að finna ákvæði um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi á borð við almannatryggingar, heilbrigði og fullnægjandi húsnæði.

Mannréttindayfirlýsingin kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

Grundvöllur mannréttinda

Mannréttindayfirlýsingin hefur verið grundvöllur mannréttinda í heiminum frá samþykkt hennar 1948. Frá þeim tíma hafa réttindi verið tryggð og viðurkennd í auknum mæli og má í því sambandi nefnda réttindi kvenna, barna og ungmenna, réttindi frumbyggja til að varðveita og vernda land sitt og menningu, auk þess sem dauðarefsing hefur verið afnumin í mörgum ríkjum.

Mannréttindayfirlýsingin
Fólk úr öllum heimshlutum kom að samningu yfirlýsingarinnar. Á myndinni eru fulltrúar í undirnefnd um málefni kvenna. Angela Jurdak (Líbanon), Fryderyka Kalinowski (Póllandi), Bodgil Begtrup (Danmörku), Minerva Bernardino (Dominíkanska lýðveldinu) og Hansa Mehta (Indlandi)

„Það má einna helst líkja Mannréttindayfirlýsingunni við galdra,“ segir Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Þegar hún var samþykkt hafði veröldin  nýverið upplifað skelfilega atburði. Í henni voru sett fram almenn réttindi og viðurkennt að allir væru jafnir.“

En þau fyrirheit sem gefin eru í yfirlýsingunni um reisn og jafnrétti allra, hafa lent í mótbyr. Veröldin stendur andspænis loftslagsbreytingum, COVID-19 heimsfaraldrinum, auknum átökum, efnahagslegum óstöðugleika, upplýsingaóreiðu, kynþáttamisrétti og bakslagi í réttindabaráttu kvenna.

75 ára afmæli 2023

Mannréttindayfirlýsingin
Mannréttindayfirlýsingin á frönsku, rússnesku, ensku, spænsku og kínversku frá 1948.

„75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar á næsta ári ætti að vera tækifæri til aðgerða,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Mannréttindi eru grundvöllur mannlegrar reisnar  og hornsteinn friðsamlegra, opinna, réttlátra, jafnra og farsælla samfélaga.“

75 ára afmælinu verður fagnað 10.desember 2023. Fram að því  og frá og með mannréttindadeginum í ár, mun Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna minnast Mannréttindayfirlýsingarinnar með því að beina kastljósi að arfleifð hennar, gildi og virkni.

 Vissir þú þetta?

Staðreyndir um mannréttindi og Mannréttindayfirlýsinguna

  • Eleanor Roosevelt var formaður nefndarinnar sem tók saman yfirlýsinguna.  Í henni sátu fulltrúar alls staðar að, sem var til marks um alheims-þýðingu mannréttinda.
  • Árið 2011 lýstu Sameinuðu þjóðirnar því yfir að aðgangur að netinu væri mannréttindi.
  • Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti 28.júlí 2022 að það væru almenn mannréttindi að lífa „í hreinu, heilnæmu og sjálfbæru umhverfi.“
  • Mannréttindastarf Sameinuðu þjóðanna var í upphafi lítil deild í höfuðstöðvum samtakanna á fimmta áratug síðustu aldar.
  • Að mati Sameinuðu þjóðanna er yfirlýsingin grundvöllur alþjóðlegra mannréttindalaga og kveikjan að rúmlega 80 alþjóðlegum mannréttindasamningum og yfirlýsingum.

Sjá einni hér, hér og hér.