Mannréttindi eru hornsteinn frelsis

0
447
alt

Ávarp Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á Mannréttindadaginn 10. desember 2010:

alt

Mannréttindi eru hornsteinn frelsis, friðar, þróunar og réttlætis og liggja til grundvallar öllur starfi Sameinuðu þjóðanna, hvar sem er í heiminum.

Lög sem vernda og efla mannréttindi eru ómissandi. En eins og svo oft veltur árangurinn á fólki…hugrökkum konum og körlum sem leggja hart að sér til að tryggja sín eigin réttindi og annara, staðráðin í því að réttindi verði að raunveruleika í lífi fólks.

Við tileinkum þessum verndurum mannréttinda, Mannréttindadaginn í ár.

Verndarar mannréttinda koma úr ýmsum áttum. Stundum eru þeir félagar í almannasamtökum, blaðamenn eða einstaklingar sem grípa til aðgerða til varnar brotum, hver á sínum stað.

En þeir eiga allir sameiginlegt að vera staðráðnir í að afhjúpa ranglæti, að vernda þá sem standa höllustum fæti og binda enda á refsileysi. Þeir rísa upp, taka til máls – og tweeta núorðið – í nafni frelsis og mannlegrar reisnar.

Verndarar mannréttinda leika mikilvægt hlutverk í baráttunni gegn mismunun. Þeir rannsaka brot og leggja fórnarlömbum lið í baráttu fyrir réttlæti og stuðningi.

Allt of oft fylgir gríðarleg áhætta starfi þeirra.

Verndararnir sæta ofsóknum, þeir missa atvinnuna og eru fangelsaðir að ósekju. Í sumum ríkjum eru þeir pyntaðir, sæta barsmíðum og eru myrtir. 

Vinir og fjölskyldumeðlimir mega einnig þola harðræði og hótanir. Konur í hópi verndara mannréttinda taka enn frekari áhættu og þurfa því á sérstökum stuðningi að halda.

Mannréttindadagurinn er tækifæri til að hylla hugrekki og árangur verndara mannréttinda hvarvetna – og heita því að gera meira til þess að standa vörð um starf þeirra.

Ríki bera fyrst og fremst ábyrgð á því að vernda mannréttindafrömuði. Ég hvet öll ríki til að tryggja tjáningarfrelsi og fundafrelsi sem er forsenda alls starfs þeirra.

Þegar verndarar mannréttinda eru í lífshættu, er öryggi okkar allra skert.

Þegar þaggað er niður í forkólfum mannréttinda, þagnar rödd réttlætisins.

Á mannréttindadaginn skulum við öll sækja innblástur til þeirra sem vinna að því að heimur okkar allra verði réttlátari. Og við skulum minnast þess að allir, óháð bakgrunni, þjálfun eða menntun, geta orðið mannréttindameistarar.

Við skulum efla þetta vald. Við skulum hvert fyrir sig gerast verndarar mannréttinda.