Markmið um að vinna á fátækt fyrir 2015 í hættu samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna

0
437

Sameinuðu þjóðunum, New York, 11. september 

–Stöðugur og mikill árangur hefur náðst við að draga úr örbirgð í heiminum, en sá árangur er nú í hættu vegna verðhækkana, einkum á matvælum og olíu og samdrætti í efnahagslífi heimsins. Þetta er niðurstaða Skýrslu um þúsaldarmarkmiðin 2008 (Millennium Development Goals Report 2008) sem Sameinuðu þjóðirnar birtu í dag

Hækkandi verð á málmgrýti og hráefni í landbúnaði hefur ýtt undir verulegan hagvöxt alls staðar í þróunarlöndum frá 2002. Á hinn bóginn standa mörg þróunarríki andspænis mikilli hækkun matvæla- og olíuverðs sem stefnir hagvexti í tvísýnu.

Nýjar tölur frá Alþjóðabankanum sem byggja á bættri tölfræði benda til að fjöldi örsnauðra í heiminum sé meiri en talið hefur verið eða 1.4 milljarðar. Nýju tölurnar sýna þó einnig að örsnauðum hefur fækkað úr 1.8 milljarði í 1.4 milljarð á árunum 1990 til 2005. Líkur eru á að örsnauðum muni hafa fækkað um helming árið 2015.

Þótt árangur hafi náðst í heild er mikill munur á heimshlutum. Mest hefur örsnauðum fækkað í Austur-Asíu, sérstaklega Kína. Í öðrum heimshlutum hefur hlutfallið lækkað minna og fátækum fækkað óverulega. Í Afríku sunnan Sahara og í Samveldi sjálfstæðra ríkja (fyrrverandi Sovétríkjunum) fjölgaði fátækum á árabilinu 1990 til 2005.

Ástæða er til að óttast að breyting verði til hins verra og sífellt fleiri verði fátækt að bráð vegna viðvarandi hækkana á matvælum. Einkum á þetta við um Afríku sunnan Sahara og suður Asíu en þar eru nú þegar flestir þeirra sem búa við örbirgð.

“Það hefur verið hagstæður byr í þróunarmálum frá byrjun þessa áratugar en nú eru blikur á lofti,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í formála skýrslunnar. “Hægst hefur á hjólum efnahagslífsins og við það minnka tekjur hinna fátæku. Fjöldi hungraðra eykst á sama tíma vegna matvælakreppunnar og milljónir verða fátækt að bráð. Þá leggjast afleiðingar loftslagsbreytinga af mestum þunga á hina fátækustu,” ritar framkvæmdastjórinn.

“Þótt mikilvægt sé að takast á við þennan brýna vanda, megum við ekki missa sjónar á langtíma takmarkinu: Þúsaldarmarkmiðunum. Þvert á móti verða Þúsaldarmarkmiðin að vera í brennidepli um leið og við tökumst á við þessar nýju áskoranir.” 

 

Aðgerðir á dagskrá Sameinuðu þjóðanna

Náin tengsl eru á milli fátæktar, loftslagsbreytinga og hækkana á olíu- og matarverði og verða þessi málefni til umfjöllunar á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem hefst síðar í þessum mánuði. 

Ban, framkvæmdastjóri hefur boðað til leiðtogafundar 25. september til að ræða aðgerðir á heimsvísu til að ná Þúsaldarmarkmiðunum. Búist er við að nærri eitt hundrað forystumenn  ríkja og ríkisstjórna taki þátt í fundinum auk leiðtoga úr einkageiranum, forystumanna alþjóða stofnana og frjálsra félagasamtaka. Búist er við að tilkynnt verði um ýmiss konar ný frumkvæði til að glíma við vanda heilsugæslu, fátækt, matvælaverð og loftslagsbreytingar á leiðtogafundinum sjálfum og hliðar atburðum. 

Miguel d’Escoto Brockmann frá Nikaragva, viðtakandi forseti Allsherjarþingsins segir að aðgerðir til að sporna við matvælakreppunni verði eitt helsta þema nýs þings sem hefst 16. september. 22. september verður fundur háttsettra forystumanna til að ræða þróunarmál í Afríku en vandi loftslagsbreytinga og landbúnaðar og glíman við fátækt eru þar í brennidepli.

Framfarir og áskoranir
.
Þúsaldarmarkmiðin voru samþykkt á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í september 2000. Þar voru sett fram markmið sem nást eiga fyrir árið 2015. Meðal þeirra eru að minnka örbirgð, valdefla konur og tryggja sjálfbært umhverfi.  Í fjórðu skýrslunni um stöðu Þúsaldarmarkmiðanna (the Millennium Development Goals Report), er tekið saman talnaefni frá 25 stofnunum Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum stofnunum, en Efnahags- og félagsmáladeild Sameinuðu þjóðanna (UN DESA). ritstýrði verkinu.

“Ef litið er fram til ársins 2015 og enn lengra, er ljóst að það er hægt að ná lokatakmarkinu: að uppræta fátækt,” segir Ban framkvæmdastjóri í formálanum. ”Til þess að svo megi verða, þarf linnulaust sameiginlegt langtíma átak.”

Á meðal þess sem áunnist hefur við að ná Þúsaldarmarkmiðunum er, samkvæmt skýrslunni:

  • Hlutfall barna sem skráð eru í barnaskóla er komið í 90% í öllum nema tveimur af tíu heimshlutum og 100% markið fyrr 2015 því innan seilingar.
  • Á barnaskólastiginu er jafnræði milli kynjanna 95% í sex af tíu heimshlutum. 
  • Dánartíðni af völdum mislinga hefur minnkað um þriðjung frá 2000 til 2006 og 80% barna í heiminum eru nú bólusett. 
  • Meir en einn og hálfur milljarður manna hefur fengið aðgang að hreinu drykkjarvatni frá því árið 1990. Vegna mikillar neyslu fersks vatns búa nú þrír milljarðar manna á svæðum sem glíma við vatnsskort. 

Þökk sé stuðningi einkageirans hefur farsímatækni og aðgangur að brýnustu lyfjum aukist í fátækustu ríkjunum.

Fjárframlög til félagsmála hafa aukist í þróunarríkjum, að hluta til þökk sé afskriftum erlendra skulda. Hlutfall útflutningstekna sem varið er til afborgana á erlendum lánum féll úr 12.5% í 6.6% í þróunarríkjunum frá 2000 til 2006. Með því hefur losnað um fé sem hægt hefur verið að fjárfesta í heilsugæslu og menntun hinna fátækustu. 

Hætt er hins vegar við því að mörg hinna átta Þúsaldarmarkmiða náist ekki án sérstaks átaks í þróunarríkjunum, hagstæðs alþjóðlegs þróunarumhverfis og aukinnar aðstoðar. Á meðal þeirra áskorana sem blasa við:

 Meir en half milljón mæðra í þróunarríkjum látast af barnsförum eða vegna erfiðleika á meðgöngu á hverju ári. 

Um fjórðungur barna í þróunarríkjum er vannærður. 

Nærri helmingur íbúa í þróunarríkjum býr við óviðunandi hreinlæti. 

Meir en þriðjungur borgarbúa í þróunarríkjum býr í fátæktarhverfum. 

Nærri tvær af hverjum þremur konum í þróunarríkjum starfa annað hvort á eigin vegum eða launalaust hjá fjölskyldum sínum.
 
Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að það sé gerlegt að ná Þúsaldarmarkmiðunum en það krefjist aukinna fjárveitinga, þar á meðal að þróuð ríki standi við þá aukningu þróunaraðstoðar sem lofað hefur verið á undanförnum árum. 

Tengsl við fjölmiðla :

Árni Snævarr, [email protected], sími                   00 32 497458088         
Martina Donlon, [email protected], sími :                   00 1 212-963-6816         
François Coutu, [email protected], sími                   00 1 917-367-8052         
Pragati Pascale, [email protected], sími                   00 1 212-963-6870         

Nánari upplýsingar: www.un.org/millenniumgoals.