Matarsóun: 400 milljarðar dala á ári

0
882
Matarsóun

Hálf étið epli sem lendir í ruslafötunni eftir hádegismat er aðeins eitt dæmi um gríðarlega sóun matvæla í heiminum á sama tíma og 800 milljónir manna leggjast til hvílu á tóman maga. Alþjóðlegur dagur gegn matarsóun er í dag 29.september.

Að koma í veg fyrir tap og sóun matvæla er ekki aðeins þýðingarmikið fyrir heimsbyggðina heldur einnig plánetuna sjálfa að mati stofnana Sameinuðu þjóðanna.

„Við getum ekki haldið áfram að tapa 14% allra matvæla sem framleidd eru í heiminum,“ segir Qu Dongyu forstjóri FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. „Heldur ekki að sóa 17% allra matvæla á heimilum, birgðageymslum, vetingahúsum og annars staðar. Andvirði alls þessa nemur 400 milljörðum Bandaríkjadala á ári.“

Í heimsmarkmiði númer 12 segir að stefnt sé að því að eigi síðar en árið 2030 hafi sóun matvæla á smásölumarkaði og hjá neytendum minnkað um helming á hvern einstakling um heim allan. Nýting í matvælaframleiðslu og hjá birgðakeðjum verði bætt, þ.m.t. við uppskeru.

Þreföld vá

Inger Andersen forstjóri Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) bendir á að fæðukerfi okkar og neysluhættir eigi verulega sök á þrefalldri vá sem steðji að jarðarbúum; loftslagsbreytingum, minnkandi fjölbreytni lífríkisins o mengun.

Hún benti á þann mikla ávinning sem fælist í því að losna við þá byrði sem framleiðsla matvæla sem ver til spillis er á jörðinni. „Fyrst er ástæða til að benda á fæðuöryggi,“ sagði hún. „Spara má á öllum stigum. Milda afleiðingar loftslagsbreytinga. Minnka mengun og draga úr notkun ferskvatns og landrýmis. Með því að nýta núverandi land á skilvirkari hátt til akuryrkju drögum við úr ágangi á lífríkið,“ segir Andersen.

Þriðja mesta losunin

Mahmoud Abdulla vara-forstjóri Matvælaátælunar Sameinuðu þjóðanna bendir á í ávarpi á alþjóðlega deginum minnir á að þótt matvælum sé sóað hafi framleiðslan engu að síður haft losun gróðurhúsalofttegunda í för með sér.

„Þrjár milljónir tonna af gastegundum sem valda gróðurhúsalofttegundum hafa þegar verið losaðar við framleiðslu matvæla sem fara í súginn“ segir Abdulla. „Ef ríki losaði svo mikið væri það hið þriðja í röðinni á lista yfir þau riki sem losuðu mest. Það verður mikilvægt að hafa þetta í huga á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, í Glasgow.“

Hér eru fimmtán ráð til að forðast matarsóun.