15.júní 2015. Danir hafa að öllum líkindum slegið Evrópumet með því að minnka sóun matvæla um 25% frá því 2010.
Talið er að sparast hafi matvæli að andvirði 88 milljarða íslenskra króna (4.4 milljarðar danskra króna). Tölurnar voru birtar af Dansk Handelsblad og Danska landbúnaðar- og matvælaráðinu. Árangur Dana er eisntæður, en áður höfðu Bretar minnkað sóun um 21% á árunum 2008 til 2013.
Selina Juul, stofnandi dönsku baráttusamtakanna Stop spild af mad (Stöðvum matarsóun) sem fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir starf sitt, fagnar þessum tölum. „Þetta sýnir stórkostlegan árangur af starfi okkar síðastliðin sjö ár. Sóun matvæla hefur verið minnkuð verulega, þökk sé umfangsmiklum aðgerðum, fræðslu og samstarfi allra hlutaðeigandi. Við höfum ekki náð takmarki okkar, en við erum á réttri leið,“ segir Selina Juul.
Að sögn Dansk Handelsblad eru Danir leiðandi innan Evrópusambandsins hvað varðar aðgerðir til að draga úr sóun matvæla. Allir stórmarkaðir í landinu hafa mótað sér stefnu til að draga úr sóun og 300 veitingahús bjóða viðskiptavinum upp á umbúðir til að taka afganga með sér heim („Doggy bags“). Sjúkrahús og tónlistarhátíðir taka einnig þátt í átaki og meira að segja danski forsætisráðherrann hefur sett baráttu gegn sóun matvæla á stefnuskrá sína. Búast má við að efnahagskreppan frá 2008 hafi einnig haft sitt að segja.