Matvælastofnun SÞ vinnur friðarverðlaun Nóbels

0
797
WFP Nóbel

Norska Nóbelsnefndin tilkynnti í dag að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP) ynni Friðarverðlaun Nóbels 2020.

WFP fær verðlaunin „fyrir baráttu sína gegn hungri í heiminum og fyrir að skapa grundvöll fyrir frið á átakasvæðum,” sagði Berit Reiss Andersen formaður norsku Nóbelsnefndarinnar í tilkynningu í morgun. “WFP er leiðandi í því að hindra að hungri sé beitt sem vopni í styrjöldum og átökum,” segir jafnframt í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar.

David Beasley forstjóri WFP sagði að þau væru ómetanleg viðurkenning á starfi starfsfókls stofnunarinnar. Hann minnti á að þær 690 milljónir manna sem glímdu daglega við hungurvofuna, ættu rétt á að lifa friðsömu lífi án þess að líða hungur.

„Norska Nóbelsnefndin hefur varpað kastljósi á hina hungruðu í heiminum og á skeflilegar  afleiðingar styrjalda. Og nú er heimsfaraldur með harkalegum afleiðingum á hagkerfi og samfélög að reka milljónir manna fram á hengiflug hungurdauða,“ sagði Beasly í yfirlýsingu.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnaði ákvörðun Nóbelsnefndarinnar og óskaði Beasley forstóra og öllu starfsliði Matvælastofnunarinnar til hamingju.

„WFP er fyrst á staðinn þegar hungur og fæðuóryggi berja að dyrum. Það er ólíðandi að í heimi allsnægjta skuli hundruð milljóna líða hungur þegar þeir leggjast til hvílu á kvöldin. Miljónir til viðbóta geta orðið hungursneyð að bráð vegna COVID-19 faraldursins.“

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna  (World Food Programme (WFP) er sú stofnun samtakanna sem sinnir matvælaaðstoð í þágu nauðstaddra jarðarbúa. WFP er stærsta stofnun heims á sviði mannúðarmála og hefur að markmði að berjast gegn hungri og tryggja fæðuöryggi. Að sögn WFP veitir stofnun 91.4 milljónum jarðarbúa aðsstoð í 83 ríkjum á hverju ári.