Minnst þróuðu ríkin eru ónýtt auðlind

0
400
alt

 Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni minnst þróuðu ríkjanna hófst í Istanbúl í gær (9. maí) en henni er ætlað að skila nýrri áætlun til að leysa úr læðingi efnahagslega möguleika þessara ríkja og hraða þróun þeirra. Þjóðarleiðtogar og oddvitar alþjóðlegra samtaka eru á meðal sjö þúsund ráðstefnugesta.

altÞessi fjórða ráðstefna um minnst þróuðu ríkin mun fara í saumana á framkvæmd svokallaðrar Brussel-aðgerðaáætlunar, lokaskjals sams konar ráðstefnu sem haldin var fyrir tíu árum, 2001. Reynt verður að ná samkomulagi um nýjar stuðningsaðgerðir við þau fjörutíu og átta ríki sem teljast til hóps hinna minnst þróuðu.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði við setningu ráðstefnunnar að ekki bæri að líta á minnst þróuðu ríkin sem “fátæk og veik” heldur beina kastljósinu að “gríðarlegum ónýttum möguleikum þeirra”. 900 milljónir manna búa í þessum ríkjum eða 12 prósent jarðarbúa. 

“Að fjárfesta í minnst þróuðu ríkjunum er tækifæri fyrir alla,” sagði Ban. “Í fyrsta lagi er það tækifæri til að létta oki fátæktar, hungurs og þarflausra sjúkdóma af þeim sem minnst mega sín í heiminum. Þetta er siðferðileg skylda.”

“Í öðru lagi geta  fjárfestingar í minnst þróuðu ríkjunum orðið lóð á vogarskálarnar til að koma hjólum efnahagslífs heimsins af stað og viðhalda bættum efnahag og stöðugleiki. Þetta er ekki góðgerðastarfsemi, heldur skynsamleg fjárfesting.

 “Í þriðja lagi eru hér tækifæri til innbyrðis samvinnu og fjárfestingu ríkja í sunnanverðum heiminum. Ríki sem eru á hraðri leið til bjargálna þurfa bæði á auðlindum og mörkuðum að halda.”