Minnumst helfarararinnar og hjálpum þeim sem þurfa hjálp

0
458
Holocaust Memorial San Fransisco. Photo Flickr Holocaust Memorial 22 2.0 Generic CC BY NC ND 2.0

Holocaust Memorial San Fransisco. Photo Flickr Holocaust Memorial 22 2.0 Generic CC BY NC ND 2.0

26. janúar 2016. Helförin er ævarandi áminning um afleiðingar þess þegar við missum sjónar á því að við tilheyrum öll sama mannkyni.

Þetta segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni af Alþjóðlegum minningardegi um helförina, 27.janúar.
Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar eftir hildarleik Síðari heimsstyrjaldarinnar í því skyni að skjóta stoðum undir réttinn til að lifa við jafnrétti og frelsi frá mismunun.

„Þessi grundvallarsjónarmið eru í fullu gildi enn í dag. Fólk um allan heim, þar á meðal milljónir flóttamanna frá stríði, ofsóknum og skorti, líður enn fyrir mismunun og ofríki. Það er skylda okkar að minnast fortíðarinnar og hjálpa þeim sem þurfa á okkur að halda,“ segir Ban í ávarpi sínu.

Þema Minningardagsins um helförina er „Helförin og mannleg reisn“. Þar er minningin um helförina tengd grundvallarsjónarmiðum Sameinuðu þjóðanna um frelsi frá mismunun og jöfn vernd laganna samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu samtakanna.

Nærri tveir þriðju hlutar evrópskra gyðinga týndu lífi í helförinni og er eitt sársaukafyllsta dæmið um afleiðingar þess þegar alþjóðasamfélagið bregst skyldu sinni að vernda borgara.

Fleiri evrópskir gyðingar fluttu búferlum til Ísraels á síðasta ári en um langt árabil. Að sögn Jewish Agency eru ástæðurnar meðal annars efnahagslegar en einnig vegna hryðjuverkaárása og andúðar á gyðingum. 30 þúsund manns fluttu til Ísraels 2015 og er það mesti fjöldi í fimmtán ár.

Aðalmynd: Holocaust Memorial San Fransisco. Photo Flickr Holocaust Memorial 22 2.0 Generic CC BY NC ND 2.0