Móðurmálsdagurinn: óendanleg blæbrigði snævar

0
635
sami
Sami

Samar eiga meir en 300 orð til að lýsa hinum ýmsu birtingarformum snævar og íss og annan eins fjölda til að lýsa ýmsu sérnorrænu veðurfari.

Í dag 21.febrúar er Alþjóðlegur dagur móðurmálsins á vegum UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Hvarvetna í heiminum þróa heimamenn orðaforða til þess að tjá blæbrigði umhverfis síns. Tungumál er því ekki aðeins samskiptatæki. Það er einnig leið til að tjá sérkenni fólks, menningu þess og tengsl við heimahaga.

Margslunginn orðaforði Sama

Tungumál Sama eru gott dæmi. Þau tengjast náttúrunni órjúfanlegum böndum. Samar hafa frá alda öðli haft lifbrauð af hreindýrum. Þeir hafa þróað margslunginn orðaforða til að lýsa lífi sínu undir heimskautinu. Snjór þekur jörð sjö mánuði ársins í Norður-Noregi og hreindýr þurfa að kroppa í snjóinn til að komast að fæðu sinni.

Sami languages
Ef tungumál Sama eru ekki notuð hversdagslega munu þau tæpast lifa af. UN Photo/O Monsen

Tölur skortir yfir fjölda þeirra sem tala tungumál Sama reiprennandi. Þau eru töluð nyrst í Evrópu þvert á landamæri ríkja á borð við Noreg, Svíþjóð, Finnland og Rússland. UNESCO telur öll mál Sama ýmist í útrýmingarhættu eða á válista.

Alls eru töluð um 6500 tungumál í heiminum og eru 43% í útrýmingarhættu. Ástæðurnar eru fordómar og jaðarsetning tungumála minnihlutahópa. Þar að auki óttast foreldrar oft og tíðum að börnin standi höllum fæti ef þau tala ekki ríkjandi mál.

Norskuvæðingin

Norskuvæðing áranna frá 1850 til 1950 skyldi eftir sig djúp spor á meðal norskra Sama. Þeir urðu fyrir áhrifum frá neikvæðum viðhorfum til tungumáls þeirra og það skilaði sér til barnanna.

En frá 1970 var gripið til aðgerða til að efla Sama-mál og bæta fyrir þann skaða sem norskuvæðingin hafði valdið. Árið 1987 var gefin út tilskipun um málefni Sama en samkvæmt henni voru Sömum tryggð lágmarks tungumálaréttindi.

Á stjórnsýslusvæði Sama-mála sem nær yfir norður-Noreg og hluta af Þrændalögum hafa Samar rétt á að nota mál sín í samskiptum við hið opinbera. Börn hafa rétt til kennslu á Sama-málum. Að auki eru nú 19 málstöðvar samísku í ýmsum hlutum Noregs þar sem kennsla í málunum fer fram og haldnir eru menningarviðburðir.

Hluti hversdagsins

Aili Keskitalo, President of the Sami Parliament of Norway. UN Photo/Manuel Elias
Aili Keskitalo, forseti norka Sama-þingsins. UN Photo/Manuel Elias

Markmið norska Sama-þingsins er að tungumál Sama verði eðlilegur og lifandi hluti hversdags lífs.

„Það þýðir að við verðum að greiða fyrir menntun Sama og notkun Sama-mála á öllum stigum samfélagsins. Þörf er á góðri lagasetningu sem tryggir réttinn til að nota Sama-mál,“ segir Liv Karin Klemetsen, starfandi deildarstjóri tungumálasviðs Sama-þingsins í Noregi í samtali við vefsíðu UNRICs.

Að mati Sama-þingsins hefur hagur norður-Sama-málsins batnað undanfarna áratugi. Framboð á norður-samísku hefur aukist í fjölmiðlum og menningu, auk þess sem gripið hefur verið til annara aðgerða til að bæta stöðu þessara tungumála.

Norður-samíska er útbreiddust tungumála Sama í Noregi en verr hefur gengið að vernda tveggja smærri mála, Lule Samísku og suður-Samísku.

„Þetta þýðir að það eru enn ljón í veginum fyrir þvi að varðvetia og þróa Sama-mál sem lifandi tungumál sem notuð eru hversdaglega í framtíðinni,“ segir Klemetsen.

Alþjóðlegt ár frumbyggjamála

Í tengslum við Alþjóðlegt ár frumbyggja-mála 2019 samþykkti Sama-þingið nýja áætlun til að varðveita og þróa Sama mál og heitir hún á frummálinu „Giellalokten“.

„Við héldum tungumálaviku Sama með ýmiss konar viðburðum og ýmsir lögðu hönd á plóginn við að efla Sama-mál í norsku samfélagi. Jafnt konungsfjölskyldan, sem ríkisstjórnin og stofnanir á borð við Félag Sameinuðu þjóðanna í Noregi, norska ríkisútvarpið auk stofnana Sama tóku þátt í átakinu,“ segir Klemetsen.

Sama-þingið bindur vonir við könnun sem gerð verður muni skila nákvæmari upplýsingum um hversu margir kunni málin.

Alþjóðlegi móðurmálsdagurinn 21.febrúar
Alþjóðlegi móðurmálsdagurinn 21.febrúar

Með því að lýsa árið 2019 ár tungumála frumbyggja vildu Sameinuðu þjóðirnar beina athyglinni að málum frumbyggja og að þeirri staðreynd að mörg þeirra eru í útrýmingarhættu. Móðurmálið er þýðingarmikið í að flytja menningu, sérkenni, söngva, sögur og siði á mili kynslóða.

Hnattvæðing, þéttbýlismyndun, fólksflutningar og stafræn tækni hafa enn aukið þrýstingin á lítil tungumál og á Alþjóðlega móðurmálsdeginum hvetja Sameinuðu þjóðirnar til að þessari óheilla þróun verði snúið við.