Ný þróunarskýrsla SÞ beinir kastljósi að ójöfnuði

0
762

Ný Þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna fyrir 2019 er komin út. Þar eru færð rök að þvi að mótmælaaldan sem riðið hefur yfir heiminn að undanförnu bendi til að þrátt fyrir almennar framfarir sé pottur brotinn í mörgum samfélögum. Færð eru rök að því í skýrslunni sem kom út í dag að rauði þráðurinn sé ójöfnuður.

Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) kynnti skýrsluna (The Human Development Report (HDR)) í dag í Brussel.

Norðurlönd í forystu

Noregur er eins og oft áður í fyrsta sæti á lista Sameinuðu þjóðanna yfir lífskjör í heiminum sem fylgir skýrslunni. Ísland þokast örlítið upp listann og fer úr sjöunda sæti í fimmta til sjötta. Þegar sérstaklega er litið á lífskjör út frá ójöfnuði kemur Ísland betur út en mörg ríki að mati skýrsluhöfunda. Norðurlöndin eru öll á meðal 12 efstu ríkja.

Í skýrslunni segir að ójöfnuður varðandi heilsugæslu, menntun og tekjur sé viðvarandi. Þetta á við jafnt um Evrópu sem og um allan heim. Bæði á milli og innan ríkja. Ójöfnuður hvað varðar tekjur og auð hefur aukist. Sjálfvirkni hefur haft mikill áhrif á vinnumarkaðinn og aukið óstöðugleika millistéttarfólks.

Þessarar tilhneigingar verður vart um allan heim. Birtist hinn svokallaði nýji ójöfnuður í æðri menntun og miklum áhrifum tækni og loftslagsbreytinga. Í þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna er leitast við að bregða upp heildstæðari mynd af félags- og efnahagslegri þróun ríkja en almennt tíðkast. Þar kemur fram að að ginnungagap sem ríkt hefur hvað varðar grundvallar lífskjör hafi minnkað. Fleiri hafi brotist úr gildru fátæktar, hungurs og sjúkdóma en dæmi eru um í sögunni. Hins vegar hafa lífsnauðsynjar þróast með ýmsum afleiðingum fyrir ríki á hvaða stigi þróunar sem þau eru.

Nýtt andlit ójöfnuðar

„Fólk fylkir liði úti á götum af mismunandi ástæðum, það mótmælir ýmist hækkun lestarfargjalda eða eldsneytis, krefst pólitísks frelsis eða sanngirni og réttlætis. Þetta er hið nýja andlit ójöfnuðar. En eins og færð eru rök að í Þróunarskýrslunni er jöfnuður ekki utan seilingar,“ segir Achim Steiner, forstjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP).

Í skýrslunni er ójöfnuður rannsakaður í þremur víddum, „handan tekna, handan meðaltala og handan dagsins í dag”. Lagðir eru til ýmsir valkostir í stefnumótun til úrbóta.

Ójöfnuður í heilsugæslu, menntun og tekjum í Evrópu

Í Evrópu hefur orðið einhver mesta lífsgæðaþróun (human development) sem um getur undanfarna áratugi. Þannig hefur Írland hækkað á lífskjaralistanaum um 13 sæti á árunum 2013 til 2018. Sjö af tíu efstu ríkjunum á lífskjaralistanum eru Evrópuríki, þar af fimm sem eru í Evrópusambandinu.

Samt sem áður hefur ójöfnuður aukist að sama skapi í Evrópu og annars staðar í heiminum. Ójöfn skipting tekna og auðs hefur dýpkað í mörgum ríkjum. Og það afnvel þótt ójöfnuður hafi minnkað verulega fyrir áhrif skatta og tilfærslna. En það sem skiptir meira máli er að mismunur er þrálátur hvað varðar heilsugæslu og menntun.

Mat á lífskjörum (human development) Spánar lækkar um 14% þegar tillit er tekið til ójöfnuðar að því er fram kemur á lista sem fylgir skýrslunni. Á slíkum lista lækka einnig Grikkland, Ítalía og Portúgal eða meir en 12%. Tékkía, Finnland, Ísland og Slóvenía lækka minnst þegar tekið er tillit til ójöfnuðar.

Annars konar ójöfnuður er líka fyrir hendi. Þannig eykst bilið á milli lífslíkna fólks (áranna sem fólk getur búist við að lífa) og líkna á því að lifa við góða heilsu.

202 ár til að brúa efnahagslegt bil

Þá er bent á stéttamun hvað varðar menntun. Bent er á fylgni milli þess að eiga vel stæða foreldra og árangurs í menntun og að verkamenn með lágar tekjur eru ólíklegir til að nota sér fullorðinsfræðslu sem í boði er.

Þá virðist glerþakið óbrjótandi þegar konur eru annars vegar. Í skýrslunni eru líkur leiddar að því að það muni taka 202 ár miðað við núverandi þróun að brúa efnahagslegt bil á milli kynjanna. Í Evrópu hefur tekjubilið minnkað en ójöfnuður er viðvarandi og hefur aukist sums staðar til dæmis í Hollandi á tímabilinuu sem skoðað var eða frá 2002 til 2014.

Sjá skýrsluna í heild hér: http://hdr.undp.org/sites/default/files/hdr_2019_overview_-_english.pdf