Nærri 40% Íslendinga með rakningar-appið

0
1022
Rakningarappið C-19 á tómum Skólavörðustíg.
Rakningarappið C-19 á tómum Skólavörðustíg.

Nærri 40% Íslendinga hafa hlaðið niður snjallforritinu Rakning C-19 í þágu baráttunnar gegn kórónaveirunni.

Alls hafa 136 þúsund hlaðið appinu niður og lætur því nærri að slíkt sé til í hverri fjölskyldu á landinu.

Þetta er álíka og 25 milljónir Breta eða Frakka, 32 milljónir Þjóðverja eða 125 milljónir Bandaríkjanna – 38% þjóðanna – hafi hlaðið niður appi sem skráir ferðir þeirra og getur komið yfirvöldum að gagni.

„Við höldum áfram að hvetja fólk til að hlaða niður appinu því við teljum að smitrakning sverði áfram lykilatriði í að ná árangri,” sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi í gær.

Rekja saman ferðir

C-19 Snjallforrit
Snjallforritið hjálpar fólki að rifja upp ferðir sínar.

Appið hjálpar til við að greina ferðir einstaklinga og rekja saman við ferðir annarra þegar upp kemur smit eða grunur um smit.

„Því fleiri sem sækja appið, því betri og skilvirkari eru upplýsingarnar sem hægt er að vinna úr því,” segir landlæknisembættið.

Að fríska upp á minnið

Ef smit greinist er haft samband við eiganda appsins og hann beðinn um leyfi til að veita aðgang að GPS hnitunum sem appið hefur skráð.

„Við notum þetta aðallega til að fríska upp á minni fólks” segir Ævar Pálmi Pálmason hjá rakningarteymi lögreglunnar í samtali við vefsíðu UNRIC.

„Það er dæmi um einstakling sem hafði ferðast landshorna á milli. Hann taldi sig hafa komið í bæinn á laugardegi en appið gaf til kynna að það hefði verið á föstudegi.”

Augljóslega breytir það öllu varðandi rakningu. Rætt er við smitaða um samskipti við aðra. Svo dæmi sé tekið af karli eða konu sem hefur keypt sér kaffibolla, er haft samband við kaffihúsið. Þá er  metið hvort tveggja metra regla hafi verið virt, hversu miklar snertingar hafa verið og metið hvort ástæða sé til sóttkvía, segir Ævar Pálmi.

En hvernig hefur íslenskum yfirvöldum tekist að sannfæra svo stóran hluta þjóðarinnar að hlaða niður rakninga-forritið?

96% traust

Svarið er traust og gagnsæi.

Íslendingar treysta viðbrögðum yfirvalda í baráttunni gegn COVID-19 betur en nokkur önnur þjóð samkvæmt nýlegri könnun eða 96%. Stjórnmálamenn hafa látið sérfræðingum eftir sviðsljósið og þríeyki landlæknis, smisjúkdómalæknis og almannavarna lögreglunnar séð um að útskýra málin.

Hönnun snjallforritsins var frumkvæði hóps fyrirtækja í forritunargeiranum og gáfu þau vinnu sína.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata er sjálfur forritari að atvinnu og hefur verið gagnrýninn á upplýsingasöfnun yfirvalda.

„Eftir nokkra eftirgrennslan fékk ég loks aðgang að opnum kóða og fór í saumana á honum,” sagði Helgi Hrafn í samtali við vefsíðu UNRIC, en að lokinni athugun hans taldi hann ekki ástæðu til að snúast gegn notkuninni, þótt vissulega séu ekki alllir Píratar sammála honum.

Íslendingar eru á meðal mestu notaenda samskiptamiðla í heiminum.  Í óvísindalegri skoðanakönnun á Facebook var spurt hvers vegna fólk hefði hlaðið niður. „Flestir eru með svona rakningarapp fyrir í símanum,” sagði Matthías Kristiansen kennari. „Það heitir Facebook…”.

Hjördís Árnadóttur tók undir. „Þetta app er ekki að fara að frétta neitt um þig sem Facebook og Google og hinir vita ekki nú þegar.”

Öpp sem vara við návist smitaðra

Suður-Kórea og Singapúr hafa verið í forystu í heiminum í notkun appa. Það er hins vegar grundvallar munur á öppum þeirra og hins íslenska því hlutverk þeirra er að vara við því að smituð manneskja sé í nágrenninu. Þetta er líka markmiðið með þróun „StopCovid” apps franskra yfirvalda.

Smittestopp
Smittestopp-snjallforritið norska. Mynd: UNRIC/Veslemöy Svartdal.

Norsk stjórnvöld kynntu snjallforritið „Smittestopp” í síðustu viku. Markmið þess er að kortleggja ferðir fólks en einnig að láta vita ef fólk hefur verið í návist smitaðra.

„Ég tel að eins margir og mögulegt er eigi að hlaða niður snjallforritinu, því það greiðir fyrir því að við endurheimtum frelsi okkar og hversdag,” sagði Erna Solberg forsætisráðherra Noregs. Hún bætti við að það væri vitaskuld hverjum og einum í sjálfsvald sett að hlaða appinu niður, en ef margir notuðu það myndi það flýta fyrir að lokunaraðgerðum vegna COVID-19 verði aflétt.”

En þetta hefur ekki verið eins óumdeild og á Íslandi. Munurinn er meðal annars sá að GPS punktum yfir ferðir fólks er safnað saman og þeir geymdir á miðlægan hátt af yfirvöldum í 30 daga.

Dagblaðið Verdens Gang (VG) sagðist í ritstjórnargrein styðja notkun smáforritisins með nokkru hiki, en ákjósanlegra væri að gögnin væru geymd á símanum en ekki í vörslu yfirvalda. „Slík lausn væri betri út frá persónuverndarsjónarmiðum. Þessi miðlæga gagnasöfnun er umdeilanlegasti hluti snjallforrits heilbrigðisyfirvalda.”

Google og Apple

Google og Apple vinna í sameiningu að því að hanna slíkt snjallforrit. Meira að segja í Svíþjóð, þar sem lítil áhersla er lögð á rakningu, er búist við að slíkt app kunni að oma að notum og þá til að vara við návist við smitaða.

„Við munum smátt og smátt færast nær þeim stað að rakning verði mikilvæg til að hafa hendur í hári hinnu síðustu smitaðra,” sagði Anders Tegnell smistsjúkdómalæknir Svíþjóðar blaðamannafundi nýlega.

Því miður er útlit fyrir að bið verði á því að leita þurfi síðustu COVID-19 smitanna.