Næstljúfasti vorboðinn á undir högg að sækja

0
781
Farfugladagurinn
Kría í árásarham á Svalbarða. Wikimedia Commons

Eitt af öruggustu merkjum þess að vorið sé komið er þegar krían kemur. Hún er ekki aðeins víðförlasti farfuglinn heldur einn mesti ferðagarpur alls dýraríkisins.

Hún lætur sér ekki nægja að vera ljúfur vorboði á norðurhveli jarðar heldur kætir hún líka andfætlinga okkar með komu sinni. Þangað flýgur hún þegar hausta tekur á norðurslóðum og er kominn á hausti að okkar tíma suður eftir en vori á þargildandi dagatali.

Nú hafa vísindamenn áhyggjur af því að kríunni stafi hætta hér við land af hlýnun sjávar og loftslagbreytingum.

Farfugladagurinn
Kríur þiggja æti hjá fengsælum Flateyingi.

8.maí er Alþjóðlegi farfugladagurinn. Varpstöðvar kríunnar eru þvert yfir heimskautsbauginn og allt suður að Bretaníuskaga í Frakklandi og álíka sunnarlega í Ameríku og Asíu.

Þótt krían sé ekki í allra mestri hættu sjófugla hér við land, leynist engum að henni fer fækkandi.

„Kríunni hefur örugglega fækkað hér við land á undanförnum áratugum,“ segir Guðmundur A. Guðmundsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

 Frá 2005 hafa krían og lundinn átt í vök að verjast vegna hruns sandsílastofnsins.  „Mjög líkleg skýring á því er hlýnun sjávar. Seiðin lifa á þörungum sem blómstra nú fyrr en áður, of snemma fyrir sílin.“

Fleiri kríur en menn

Farfugladaguri
Kríur nærri Jökulsárlóni. Wikimedia Commons.

Nú er talið að 250 þúsund kríupör geri sér hreiður á Íslandi, fleiri kríur búa á Íslandi en menn.

Meðal-líftími kríunnar er í kringum 20 ár en dæmi eru um að þær nái miðjum fertugsaldri. Krían er á svokölluðum Rauða -eða – válista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN), en einna lægst á þeim lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

Lundinn við suður- og vesturströndina hefur sýnt batamerki og er vonast til að krían fylgi í kjölfarið.

Krían stendur svo sannarlega undir nafninu farfugl.

„Krían er í raun á ferð allt árið,“ segir Guðmundur. „Hún er mikið úti á hafi og berst með vindum og straumum.“

Heimsmethafi í langflugi

Ekki þarf að koma á óvart að hún er heimsmethafi í farflugi. Hún lætur sér ekki nægja að fljúga heimskauta á milli, heldur tekur hún á sig ýmsa króka. Oft og tíðum er flugleið hennar eins og bókstafurinn s, auk ferða hennar við suðurskautið. Dæmi eru um að eintakur fugl hafi lagt 100 þúsund kílómetra að baki á ari eða sem samsvarar tvisvar sinnum í kringum hnöttinn.

Farfugladagurinn
Wikimedia Commons

Heitið vorboðinn ljúfi er frátekið af öðrum fugli, en krían er sannarlega aufúsugestur á Íslandi. Hún kemur hingað síðar hluta aprílmánaðar. Þegar ungarnir eru ferðbúnir í ágúst kveður hún síðan Ísland og heldur suður á bóginn.

Hún dvelur langdvölum á hafi úti, til dæmis sunnan við Grænland (50.gráðu) en þar er gnægt ætis. Annar kunnur áfangastaður hennar er í Höfðaborg í Suður-Afríku en þar er hún á ferðinni í nóvember.

Þegar hún hefur flogið alla leiðina suður í áleiðis að Suðurskautslandinu heldur hún sig við ísröndina en færir sig austar, jafnvel alla leið til móts við Ástralíu. Síðan færir hún sig aftur til vesturs áður en hún kemur hingað að vori. Þær leggja af stað frá Weddell-hafi í suðuríshafinu um miðjan mars og kemur hingað upp úr 20.apríl og hefur verið allt að einn og hálfan mánuð á leiðinni.“

Dæmi eru um að á heimleiðinni flugi krían um Brasilíu eða jafnvel yfir Andesfjöllin í Suður-Ameríku.

„Þetta er mikið ævintýri“ segir Guðmundur.

Aðgengileg hreiður

Farfugladagurinn Það er þversagnakennt að eftir að hafa flogið yfir endilangan hnöttinn, þá verpir fuglinn á  tiltölulega aðgengilegum stöðum. Hún er því árásargjarnari og sækjast aðrar fuglategundir eftir að verpa í nábýli við hana.

Alþjóðlegur dagur farfugla er haldinn tvisvar á ári 8.maí og síðan 10.október að hausti.

Þema dagsins að þessu sinni er „Syngið eins og fuglar,  fljúgið og farið með himinskautum“.