Nicole Kidman og Sameinuðu þjóðirnar styðja átak gegn kvennaofbeldi

0
434

Óskarsverðlaunaleikkonan Nicole Kidman, sendiherra Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna fyrir konur (UNIFEM) hvetur til þátttöku í undirskriftaherferð á netinu til stuðnings þess að ofbeldi gegn konum verði útrýmt.  

NIcole Kidman, góðgerðasendiherra UNIFEM á blaðamannfundi í New York ásamt ýmsum oddvitum Sameinuðu þjóðanna.

“Hver einasta manneskja telur og hver einasta króna líka,” sagði Nicole Kidman á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar hvatti hún fólk til að leggja nafn sitt við undirskriftasöfnunina og til að láta fé af hendi rakna. “Látum fórnarlömb ofbeldis um allan heim vita að það sé hægt að reiða sig á okkur.” 
Þegar hún var spurð að því hvers vegna hún legði þessum málstað lið, sagði UNIFEM sendiherrann að sem móðir tveggja barna sem væri kominn sjö mánuði á leið að auki, vildi hún leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að börnin hennar og öll börn í heiminum gætu öðlast “betra líf.”  
Meir en tvö hundruð þúsund manns hafa undirritað yfirlýsinguna “Segjum NEI við ofbeldi gegn konum”, frá því átakinu var ýtt úr vör í nóvember. 
“Með því að undirrita yfirlýsinguna senda almennir borgarar ótvíræð skilaboð til leiðtoga heimsins um að þeir vilji að gripið sé til róttækra aðgerða.” sagði Joanne Sandler forstjóri UNIFEM á blaðamannafundinum. “Þeir vilja að bundinn sé endi á refsileysi, að fórnarlömbum sé sinnt og það sem mest er um vert: að fjárfest sé ríkulega í forvörnum.” 
Sandler bætti við að það væri fagnaðarefni að ríkisstjórnir legðu nú málstaðnum lið, þar á meðal undirritaði öll ríkisstjórn Senegals með forseta landsins í broddi fylkingar skjalið á dögunum.  
Asha-Rose Migiro, vara-framkvæmdastjóri  Sameinuðu þjóðanna sagði að Sameinuðu þjóða kerfið fylkti liði um þetta málefni og benti á að Ban Ki-moon framkvæmdastjóri SÞ hefði hrundið af stokkunum árslöngu átaki í febrúar síðastliðnum. Þar taka alþjóðasamtökin höndum saman við ríkisstjórnir og borgaralegt samfélag um að binda enda á ofbeldi gegn konum sem sé vandamál sem taka þurfi á “tafarlaust.” 
Migiro sagði að ofbeldi gegn konum væri “útbreiddasta mannréttindabrot heims” sem þekktist alls staðar, í öllum menningarheimum og í öllum tekjuhópum. 
Til að undirrita: http://www.unifem.org/campaigns/vaw/