Niðurtalning fyrir sjálfstæði Suður-Súdans

0
412
Eskinde

EskindeSuður-Súdan verður sjálfstætt ríki innan fjögurra daga og Sameinuðu þjóðirnar eru í óðaönn að undirbúa starf sitt við að styðja við bakið á þessu nýja ríki.
 
Háttsettir embættismenn samtakanna, með framkvæmdastjórann Ban Ki-moon í broddi fylkingar verða viðstaddir hátíðahöldin vegna sjálfstæðisins frá Súdan í Juba, höfðurborg hins nýja ríkis. Rekja má sjálfstæði Suður-Súdans til friðarviðræðna sem Sameinuðu þjóðirnar studdu og batt enda á áralangt borgarastríð á milli norður og suðurhluta Súdans.   

Suður-Súdanir hita upp fyrir sjálfstæðis-hátíðina á laugardag.

Umboð sveitar Sameinuðu þjóðanna í Súdan (UNMIS) sem var komið á fót í kjölfar  friðarsamkomulagsins 2005, rennur út á laugardag og búist er við að ný starfsemi á vegum SÞ leysi friðargæslusveitina af hólmi.  

 Peter Wittig sendiherra Þýskalands sem situr þennan mánuð í forsæti Öryggisráðs SÞ sagði fréttamönnum að ákafar umræður eigi sér stað innan ráðsins um með hvaða hætti sendisveit samtakanna starfi. Búist er við atkvæðagreiðslu í lok vikunnar. 

Wittig segir að ráðið muni sitja fund 13. júlí þar sem rætt verði hvort mæla eigi með að Suður-Súdan verði 193. aðildarríki samtakanna. Síðasta ríki sem fékk aðild að Sameinuðu þjóðunum var Svartfjallaland árið 2006. 

 David Gressly, oddviti Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan segir að ástæða sé til að hafa áhyggjur af fjölda Suður-Súdana sem séu á leið heim til hins nýja ríkis frá Norður-Súdan en komist hvorki lönd né strönd og búi nú við slæm skilyrði.
 
Dominik Bartsch talsmaður Flóttamannahjálpar SÞ (UNHCR), segir að á bilinu half önnur til tvær milljónir sunnanmanna hafi búið í norðurhluta landsins og um þrjú hundruð þúsund hafi nú þegar snúið heim. 

“Því miður eru margir fastir á leið sinni heim, sérstaklega í bænum Kosti, en þar eru sextán þúsund manns í búðum sem reistar voru fyrir aðeins tvö þúsund manns enda eru aðstæður mjög erfiðar,” sagði Bartsch.