Noregur lækkar framlög til SÞ um 20%

0
457

Solberg

9.október 2014. Norska ríkisstjórnin hyggst hækka framlög til þróunarmála samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í gær. Hins vegar er gert ráð lækkun framlaga til stofnana Sameinuðu þjóðanna um 900 milljónir norskra króna (140 milljónir dala) eða um 20%.

Að sögn fastanefndar Noregs hjá Sameinuðu þjóðunum er Noregur í fjórða sæti yfir þær þjóðir sem mest leggja til Sameinuðu þjóða-kerfisins í heild.

Barnahálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) verður harðast úti af stofnunum SÞ og tapar nærri helmingi framlaga frá Noregi, sem þó verða andvirði 80 milljóna dala í fjárlagafrumvarpi 2015. Einnig er verulega skorið niður til Þróunarstofnunar SÞ (UNDP) eða um nærri átta milljónir dala.

„Það sem skiptir mestu máli er hverju við getum komið til leiðar með því fé sem við látum af hendi rakna, að norsk þróunaraðstoð sé skilvirk og að við náum áþreifanlegum árangri,” segir Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að varið verði 32.5 milljörðum norskra króna (5 milljörðum dala) til þróunarsamvinnu. Þetta er hækkun um einn milljarð norskra króna (155 milljónir dala) miðað við 2014.

„Að hluta til er þessi niðurskurður aðvörun til Sameinuðu þjóðanna um að gæði og skýrslugerð séu ekki fullnægjandi,” segir Rune Arctander, aðstoðar-framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna í Noregi.

Mest áhersla verður lögð á menntun, mannúðaraðstoð, heilbrigði og bólusetningar, eflingu atvinnulífs, loftslagsaðgerðir og mannréttindi í þróunarsamvinnu.

„Stefna okkar í þróunarmálum er að efla efnahagsþróun, lýðræðisvæðingu, mannréttindi, góða stjórnunarhætti og aðgerðir sem stuðla að því að rífa fólk varanlega upp úr fátækt,” segir Brende, utanríkisráðherra.

Fjöldi ríkja sem munu njóta þróunarsamvinnu við Noreg verður fækkað töluvert eða úr 116 í 84. Tólf ríki verða í forgrunni en það eru Afganistan, Haítí, Malí Palestína, Sómalía, Suður-Súdan, Eþíópía, Mósambik, Nepal og Tansanía.

Ný mið-hægri ríkisstjórn undir forystu Ernu Solberg tók við stjórnartaumunum í Noregi af Jens Stoltenberg forsætisráðherra Verkamannaflokksins fyrir sléttu ári eftir kosningar til Stórþingsins.

Mynd: Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs ásamt Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, 25.september. SÞ-mynd/Eskender Debebe.