Noregur og IKEA með rausnarleg framlög til þróunar

0
428

norsk minister

24. september 2013. Norska stjórnin og sænska fyrirtækið IKEA tilkynntu í gær um stórframlög til að greiða fyrir Þúsaldarmarkmiðunum um þróun.
Framlögin frá Norðurlöndunum voru á meðal hæstu framlaga sem tilkynnt var um á heils dags fundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í boði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Alls var tilkynnt um 2.5 milljarða dollar framlög og bar hálfs annars milljarðs dollara framlag frá bresku stjórninni þar hæst. Framlögunum er ætlað að greiða fyrir því að Þúsaldarmarkmmiðunum um þróun verði náð tímanlega fyrir 2015, eins og stefnt hefur verið að frá því veraldarleiðtogar samþykktu átta liða áætlun til að vinna gegn fátækt og sjúkdómum í heiminum á þúsaldarfundinum árið 2000.

Ban Ki-moon boðaði til fundar með þjóðarleiðtogum sem sitja Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, fullltrúum fyrirtækja og almanna- og góðgerðasamtaka til að efla viðleitnina til að ná Þúsaldarmarkmiðunum, nú þegar um átta hundruð dagar eru til stefnu.
Ban viðurkenndi á fundinum að árangurinn hingað til hefði verið ójafn, en þótt mörgum markmiðanna hefði ekki enn verið náð, benti hann á að sú framþróun sem hefði orðið á mörgum sviðum, sýndi ljóslega að árangur væri innan seilingar og innan tímamarkanna, ef allir legðust á eitt til að hraða aðgerðum.

“Fátækt hefur snarminnkað, heilbrigði er farið að batna og læsi hefur stóraukist. Það sem mörgum fundust vera óraunsæjar skýjaborgir, hefur reynst vera framkvæmanlegt.”

Fyrirheit um 2.5 milljarðar dollara framlög voru gefin í gær. Þar á meðal:

• Breska ríkisstjórnin tilkynnti um 1.6 milljarða fjárveitingu til Sjóðsins til að berjast gegn Alnæmi, berklum og mýrarköldu á þriggja ára tímabili 2014-2016
• Alþjóðabankinn tilkynnti um að minnsta kosti 700 milljóna dollara fjárframlög til að aðstoða ríki við að ná Þúsaldarmarkmiðunum um heilbrigði kvenna og barna á Indlandi.
• Noregur lætur 75 millljónir dollar af hendi rakna til nýs sjóðs til að bæta heilsugæslu mæðra og nýbura..
• IKEA tilkynnti að sérstakur sjóður sænska fyrirtækisins myndi styrkja UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna um 80 milljónir dollara til að bæta haga indverskra barna.

Mynd: Heikki Eidsvoll Holmås, ráðherra alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í norsku stjórninni á fundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í gær.SÞ-mynd /Amanda Voisard