Norðurlandabúi mánaðarins Bo Schack

  Bo Schack Credit UNHCR Afghanistan

Mars/Apríl 2014. Norðurlandabúi mánaðarins að þessu sinni er danskur reynslubolti sem hefur komið víða við þar sem þörfin hefur verið mest. Bo Schack er þessa stundina við störf hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Afganistan og hann kallar ekki allt ömmu sína. Skömu eftir að viðtalinu var lokið barst okkur svo tölvupóstur frá Bo Schack. Hann sagðist hafa verið á Serena hótelinu í Kabúl þegar vígamenn gerðu árás og drápu níu manns. “Mig sakaði ekki – ég var á herberginu allan tíman með ljósin slökk.”

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera í eldlínunni.

Hvernig stóð á því að þú fórst að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar?

Ég byrjaði sem svokallaður Junior Professional Officer (JPO) árið 1985 en þá hafði ég unnið sem lögfræðingur í ráðuneyti og stundað nám í the European College í Belgíu. Mér kom snemma til hugar að sækja um vinnu hjá SÞ eða öðrum alþjóðlegum samtökum og raunar var ég farinn að huga að þessu á námsárunum. Ég kunni frönsku og það greiddi leiðina fyrir því að sækja um JPO stöðu í Dakar í Senegal. Þetta reyndist byrjunin á löngum ferli en ég hef starfað í Afríku, Asíu, Evrópu og Mið-Austurlöndum. Ég hef að mestu starfað fyrir Flóttamannahjálpina (UNHCR) að mannúðarmálum, en einnig við þróunarmál og pólitísk málefni í Mið-Afríkulýðveldinu frá 2009 til 2011.

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá UNHCR í Afganistan?

Við byrjum vinnu á skrifstofunni um átta að morgni en stundum þarf að huga fyrr að tölupóstum og öðrum tilkynningum um öryggismál í Kabul og nágrenni eða á öðrum stöðum í landinu. Þetta þarf ég þá að ræða við samstarfsmennina í bítið. Síðan tekur hver fundurinn við af öðrum, með vinnufélögum í öðrum stofnunum SÞ, frjálsum félagasamtökum, ríkisstjórn og stjórnarerindrekum. Ég þarf líka að lesa tölvupósta og bréf og hitta uppflosnað fólk innanlands og flóttamenn sem snúið hafa heim. Við hittum öldunga og höfðingja yfir tebolla og aðra málsmetandi Afgani, ekki síst þegar ég ferðast um landið en við erum með tíu svæðisskrifstofur. Ég er um fjórðung tímans á ferð um landið en einnig í nágrannaríkjunum Pakstan og Íran.

Þú hefur áður unnið í Mið-Afríkulýðveldinu og nú í Afganistan. Er eitthvað sem heillar við slík ríki?

Á þeim 28 árum sem ég hef starfað fyrir SÞ hef ég laðast að ríkjum sem standa höllum fæti. Það liggur í hlutarins eðli þegar maður vinnur hjá UNHCR er maður að vinna með flóttamönnum og uppflosnuðu fólki í heimalandi sínu og þar af leiðandi er það “eðlilegt” að halda til starfa í ríkjum sem eiga undir högg að sækja. Samt sem áður hefur áhuginn aukist með árunum. Vinátta og tengsl og forgangsröð eru öðru vísi. Á einum degi er maður með allra fátækustu flóttamönnum, fólki sem snúið hefur heim við illan leik en einnig blandar maður geði við stjórnmálamenn, embættismenn, stofnanir í félagslega geiranum, diplómata og yfirmenn lögreglu og hers. Fjölbreytnin er mikil og hressandi og maður fyllist oft auðmýkt yfir öllu því sem maður getur lært af mismunandi fólki. Bilið á milli ofbeldis og stjórnmála er oft mjótt og maður verður að passa það sem maður segir.
En þess á milli er hægt að laða fram bros og mynda náin tengsl við mikla tedrykkju og úrvals mat..

Þú hefur farið víða á vegum Sameinuðu þjóðanna og oft við erfiðar aðstæður. Hvað hefur verið mest krefjandi?

Íran og Sri Lanka voru krefjandi. Fyrrverandi Júglóslavía á stríðsárunum þar og svo Mið-Afríkulýðveldið. Mesta áskorunin fyrir sjálfan mig er að gefa mér tíma til að hlusta og læra af öllum.
Að skilja og sætta mig við að vera auðmjúkur gagnvart því hugarástandi og aðstæðum sem fólk býr við. Og skapa rými fyrir mannúð hjá ríkisstjórnum og uppreisnarhópum sem hafa lítinn skilning á aðstæðum þeirra sem stökkt er á flótta í stríði.

Er eitthvað sérstakt sem þú hefur fram að færa sem Norðurlandabúi eða Dani í starfi þínu?Norrænn uppruni minn hefur blandast ýmissi reynslu og upplifunum en ég held samt að það séu góðir eiginleikar að vera opinn og óformlegur þegar stofna skal til nýrra kynna. Og kannski felur þetta í sér að vera tilbúinn til að hlusta og hrapa ekki að ályktunum.