Norðurlandabúi mánaðarins: Jan Mattsson

0
475

5. Nordic of the month

Svíinn Jan Mattsson, er forstjóri UNOPS, Skrifstofu verkefnaþjónustu Sameinuðu þjóðanna. Hann er ekki aðeins hokinn afreynslu sökum þess hversu lengi hann hefur unnið hjá samtökunum eða frá 1982, heldur einnig vegna þess hversu víða hann hefur komið við hjá þeim. Hann var áður aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna og stjórnandi hjá UNDP, auk þess að vinna hjá UNIDO, WFP, UNFPA og UNDCP í löndum á borð við Sri Lanka, Indlandi, Kína og Laos auk höfuðstöðvanna í New York.

Sem forstjóri UNOPS síðan 2006 lék hann stórt hlutverk í að koma á fót nýju „Sameinuðu þjóða borginni“ í Kaupmannahöfn.

Þú hefur komið víða við síðan þú gekkst fyrst til liðs við samtökin árið 1982, hvers vegna vildirðu starfa fyrir Sameinuðu þjóðirnar?

Ég var strax í skóla áhugasamur um félagslegt réttlæti og starf Sameinuðu þjóðanna. Eftir að ég kláraði háskóla sótti ég um nokkur störf hjá SÞ. Ég man eftir því að í einu tilviki fékk ég bréf um að ég hefði verið valinn en ráðningu frestað ótímabundið vegna fjárhagserfiðleika. Loks fékk ég starf hjá Iðnþróunarsamtökum Sameinuðu þjóðanna (UNIDO) á Sri Lanka þegar ég var þrítugur. Þrjátíu árum síðar sé ég ekki eftir neinu! Hvert og eitt starf sem ég hef gegnt hjá SÞ hefur fært mér mikið. Mér hafa boðist nokkur störf utan SÞ en ekkert hefur staðist samanburð, ekki heldur betur launuð störf.

Hverjar eru mestu áskoranirnar á ferlinum?

Maður stendur alltaf frammi fyrir áskorunum þegar maður vinnur hjá SÞ og flestar eru af hinu góða því manni gefast tækifæri til að breyta hlutum til hins betra. Listinn er langur. Oftast nær þegar maður er vonsvikinn er það vegna óskýrs umboðs frá Öryggisráðinu eins og þessa dagana í Sýrlandi eða vegna þess að maður rekst á skriffinna hjá SÞ eða einstökum ríkisstjórnum sem hafa eigin hag að leiðarljósi.

Þú ert sænskur en vinnur hjá Sameinuðu þjóðunum í Kaupmannahöfn. Hafa Norðurlönd eitthvað sérstakt fram að færa til Sameinuðu þjóðanna?

Það kom mér á óvart þegar ég byrjaði hversu mikilvægt hlutverk Norðurlandanna er innan Sameinuðu þjóðanna, að ógleymdum sjóðunum og áætlunum þeirra. Þetta hefur ekkert breyst. Þau leika stærra hlutverk en stærð þeirra gefur til kynna, ekki aðeins hvað varðar fjárframlög heldur líka á forystusviði, í umbótum og nýjungum. Sem dæmi má nefna má rekja til þeirra lausnamiðaða og gagnsæja stjórnun auk kynja og sjálfbærnisjónarmiða innan þróunarsamvinnu.

Fyrir nokkrum dögum voru nýju höfðustöðvarnar í Kaupmannahöfn vígðar en þær hýsa 8 stofnanir samtakanna. Af þvi tilefni sagði framkvæmdastjóri samtakanna að þær væru „skínandi góð fyrirmynd“ fyrir „skilvirkari, samræmdari og kolefnasnauðari“ Sameinaðar þjóðir. Gætirðu sagt okkur meira um þetta?

Byrjum á því að byggingin sjálf er til fyrirmyndar hvað varðar nýtingu orku og þetta er sannarlega til fyrirmyndar, ekki síst fyrir UNOPS sem einblínir á sjálfbærni í verkefnastjórnun, sjálfbær mannvirki og sjálfbær innkaup. Ég er viss um aðrir starfsfélagar hjá hinum stofnunum eru jafn ánægðir með vistvæna þáttinn og hinar góðu starfsaðstæður. Og það eflir samvinnuna að vera undir sama þaki, átta stofnanir.

Hvernig sérðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir þér eftir svona tvo áratugi?

Ég vonast eftir því að það verði meiri innri samræming og skilvirkni innan Sameinuðu þjóðanna og meiri samvinna við almannasamtök og einkageirann. Þetta er nauðsynlegt til þess að Sameinuðu þjóðirnar eigi áframhaldandi erindi í að glíma við áskoranir dagsins í dag og morgundagsins hvort heldur sem er í endurreisnarstarfi þegar friði hefur verið komið á, í mannúðaraðstoð eða í sjálfbærri þróun.