Norðurlandabúi mánaðarins – Rasmus Egendal

0
472

rasmus egendal - photo wfp dina elkassaby 6

19.febrúar 2014. Daninn Rasmus Egendal stendur í ströngu þessa dagana því hann ber hitann og þungan af því að koma aðstoð til sveltandi almennings í Sýrlandi. Egendal starfar hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og vara-samræmingarstjóri fyrir þennan heimshluta. Við hittum hann í Brussel og spurðum hvort það væri ekki vonlaust verk að koma matvælum til fólks sem væri á milli steins og sleggju hinna stríðandi fylkinga. “Ekkert er ómögulegt”, segir hann og brosir.

En hvernig stóð á því að þú fórst að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar?

“Það byrjaði með því að ég sá auglýsta stöðu fyrir ungt fólk á vegum danska utanríkisráðuneytisins hjá WFP. Starfið var í El Salvador og ég vildi gjarnan komast þangað því ég hafði unnið þar áður. Ég sótti um og fékk starfið. En af einhverjum ástæðum breyttist þetta og ég var sendur til Rómar í staðinn. Ég sagði sem var að ég hefði fremur kosið að fara til El Salvador en í höfuðstöðvunum í Róm en eftir að hafa gegnt þessu starfi í nokkur ár var mér boðið starf milliliðalaust hjá WFP. Þannig byrjaði þetta.

Ég hef unnið í mörgum löndum um lengri eða skemmri tíma. Ég er ekki með allan listann en þeirra á meðal eru Indónesía, Austur-Tímor, Bangladesh, Rússland, Georgía, Kirgistan, Suður-Súdan og auðvitað Ítalía. Ég hef verið víðar í styttri verkefnum. Erfiðasta og flóknasta verkefnið var í Banda Ache á dögum flóðbylgjunnar sem reið yfir Indlandshaf. Þeir fimm-sex mánuðir voru hreint brjálæði því við urðum að byggja frá grunni í rústunum. Við sváfum á tennisvelli og ekki var hægt að ganga að neinu vísu. Maður varð eins og stundum gerist að vinna við ómannúðlegar aðstæður, en það var ekkert val. Þegar maður leit í kringum sig og sa dáið fólk og eftirlifendur sem höfðu misst allt sitt, hætti slíkt að skipta máli og maður bara hélt sínu striki.”.

Er eitthvað sérstakt norrænt sem þú hefur fram að færa í þínu starfi?

“Hvort það er norrænt veit ég ekki, en ég held að það sé nauðsynlegt að hafa ákveðin gildi að leiðarljósi. Maður verður að hafa í huga að fólk og nauðsynjar þess verða að vera í fyrirrúmi þegar maður starfar við mannúðaraðstoð. Og það er jafnvel enn meiri nauðsyn þegar aðstæðurnar eru jafn flæktar í vef stjórnmála og átaka og raun ber vitni.

Hitt sem er okkur mikilvægt er gildi samræðunnar og að talsambandið megi ekki falla niður. Lausnin er ekki stríð og kúlnahríð heldur samningaviðræður og það hef ég í huga í starfi mínu á hverjum einasta degi.”

Þegar við sjáum myndir frá Sýrlandi virðist allt svo hryllilegt og vonlaust. Upplifir þú það sama og við sjáum á myndunum?

“Ekkert er vonlaust! Fólk finnur leiðir til þess að komast í gegnum daginn, þótt það sé mjög, mjög erfitt fyrir marga. Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér og það er reginmunur á tilverunni í dag og því það sem fólkið er vant. Maður finnur það jafnmikið og maður sér.

WFP reynir að haga aðstoðinni á þann hátt að líf hinna stríðshrjáðu geti haldið áfram á eins eðlilegan hátt og mögulegt er. Við afhendum ekki matarpakka, heldur gefum fólki peninga. Við látum flóttamenn fá debitkort og með það í höndunum getur fólk farið í verslanir. Fólkið ákveður sjálft hvað það vill kaupa og það hefur val. Þetta gefur fólki ákveðna reisn. Það ýtir undir þá tilfinningu að fólkið ráði ennþá sínu lífi, að minnsta kosti að hluta til. Það er mikilvægt því það er svo margt sem það hefur enga stjórn á. Það er okkur mikilvægt að skapa aðstæður þar sem eðilegt ástand ríkir og að fólk hafi val og reisn.”

Er nægt fé til að hjálpa öllum nauðstöddum í Sýrlandi?

“Við vorum einstaklega heppin á síðasta ári, verð ég að segja. Við höfum enn ekki komist í þá aðstöðu að þurfa að minnka aðstoð við flóttamenn. Þetta hefur gengið vonum framar, ekki síst vegna ótrúlegrar rausnar margra ríkja. Þetta hefur verið okkur mikilvægt. Norðurlönd hafa verið gjöful. Noregur og Danmörk hafa verið sérstaklega rausnarleg; og miðað við höfðatölu áreiðanlega rausnarlegust. Við höfum meira að segja fengið góðan stuðning frá Færeyjum. Það er mikill skilningur í Norður-Evrópu á því að þetta er sérstaklega djúpstætt vandamál. Slíkur fjöldi flóttamanna hefur ekki sést frá því í Síðari heimsstyrjöldinni. Og efnahagslegar afleiðingar eru miklar að ekki sé talað um öryggi fólks. Það er ástæða að óttast að átök breiðist út til nágrannaríkja og við höfum þegar séð forsmekkinn í Íran og Líbanon. Það er hætta á óstöðugleika í þessum heimshluta en slíkt yrði reiðarslag.”

Sérðu einhverjar breytingar í Sýrlandi og nágrannaríkjum frá því friðarviðræður hófust í Genf?

Það hafa ekki orðið neinar meiri háttar breytingar í Sýrlandi eftir að viðræðurnar hófust. Við bjuggumst heldur ekki við því. Það er mikilvægt að menn setjist niður og reyni að finna lausn. Maður vonast eftir árangri, hvað er annað hægt?

Ég hel að lykilatriði sé alþjóðlegur þrýstingur frá öllum hliðum. Það ríkir almenn sátt um að það þurfi að finna lausn, þannig að þrýstingur er fyrir hendi, en það eru fleiri en tvær fylkingar í þessari deilu og allir þurfa að samþykkja að binda enda á átökin, annars endar þetta með ósköpum. Svo lengi sem þeir slíðra ekki sverðin, verðurm við til staðar og reynum að koma matvælum og aðstoð ti fólksins sem býr við sívaxandi neyð. Og slíkt er erfitt verk.”