Norðurlandabúi mánaðarins:

0
488
Kimmo Sasi

Kimmo Sasi, forseti Norðurlandaráðs vill sameiginlega utanríkis- og varnarmálastefnu

Kimmo SasiNorðurlandaráð lætur alþjóðamál til sín taka í sífellt vaxandi mæli en þau voru nánast bannorð innan norræna samstarfsins á tímum Kalda stríðsins. Síðasta þing ráðsins þar sem fagnað var sextugs afmælis þess, var engin undantekning.

 

Tilkynnt var á þinginu í Helsinki (30. október – 1. nóvember) um að Svíar og Finnar myndu taka að sér loftrýmisgæslu Íslands á næsta ári, varnar- og utanríkismál voru rædd sérstaklega að ógleymdum málefnum Norðurheimskautsins.

Finninn Kimmo Sasi, forseti Norðurlandaráðs 2012 gekk jafnvel svo langt í aðdraganda þingsins að hvetja til sameiginlegrar norrænnar utanríkisstefnu. Sasi er í norræna viðtali mánaðarins í fréttabréfinu.

Haft hefur verið eftir þér að Norðurlönd skuli sameina “utanríkis- og varnarmálastefnu sína”. Hvers vegna?

Norðurlönd myndu hafa meiri sýnileika með því að starfa saman. Ef fimm ríki styðja tiltekin sjónarmið á alþjóðlegum vettvangi, eflist slíkt viðhorf. Við færum betur með fé með því að sendiráð ynnu saman. Við gætum sparað verulega ef herir landanna gerðu sameiginleg innkaup. Samvinna norrænna herja í friðargæsluaðgerðum erlendis liggur svo beint við. Við gætum líka reynt að sérhæfa okkur til þess að starf okkar yrði skilvirkara.  

Hvernig gætu Norðurlöndin unnið saman innan Sameinuðu þjóðanna? Norðurlöndin hafa hvert sína Þróunarsamvinnustofnun, er hægt að auka samvinnu þeirra?  

Norðurlöndin vinna náið saman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem við styðjum hvert annað. Best væri ef við styddum við bakið á ólíkum ríkjum í þróunarsamvinnu okkar, til þess að sýnileika Norðurlanda dreifðist á fleiri ríki. Ég tel að Norðurlöndin ættu að setjast niður og ræða um sameiginlegar áætlanir okkar og sýn á heiminn.   

Sérðu eitthvað hlutverk fyrir Sameinuðu þjóðirnar á Norðurheimskautssvæðinu eða telur þú að Norðurheimskautsráðið verði eini alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn fyrir þetta svæði?  

Norðurheimskautsráðið er helsti vettvangurinn sem ber ábyrgð á því að þróa reglur og starfsemi á Norðurheimskautinu enda eiga allir meðlimirnir hlut að máli á norðurslóðum. Ef ákvarðanirnar hafa áhrif út fyrir Norðurheimskautið væri til bóta að ræða málin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er auk þess eðlilegt að Sameinuðu þjóðirnar séu upplýstar um starf Norðurheimskautsráðsins.

Finnlandi mistókst að tryggja sér sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á dögunum. Þetta er í annað skipti í röð sem norrænt framboð bíður ósigur. Norðurlönd höfðu nánast áskrift að sæti í Öryggisráðinu annað hvort körtímabil, en þetta hefur breyst; hvers vegna?

Aðstæður hafa breyst og fjöldi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hefur vaxið. Þróunarríkjum vex ásmeginn eftir því sem efnahagurinn blómgast og þau hasla sér völl á alþjóðavettvangi. Margir telja að Evrópa sé of fyrirferðarmikil í Öryggisráðinu enda hafa tvö Evrópusambandsríki fast sæti í ráðnu auk Rússlands. Þetta grefur undan möguleikum annara Evrópuríkja og sést líka á því að Ástralía tryggði sér setu í Öryggisráðinu í fyrstu umferð. Í tilfelli Finnlands dró það úr möguleikum okkar að við vorum hvorki hluti af frönskumælandi ríkjum (Francophonie) né NATO og meira að segja erum við ekki lengur óumdeild innan Evrópusambandsins.

Mynd: Kimmo Sasi: Magnus Fröderberg/norden.org