Norræn fjármögnun veitir vegalausum Jemenum lífsnauðsynlegan stuðning

0
580
Uppflosnðu börn á Al Raqa svæðinu í Sana'a.
Börn sem hafa neyðst til að yfirgefa heimili sitt stunda nám við skóla sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna byggði í Al Raqa í Sana. © Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna/YPN

Fjármögnun frá Norðurlöndunum sem ekki er sérstaklega eyrnamerkt auðveldar Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að vernda og aðstoða Jemena sem eru fórnarlömb eins umfangsmesta en fjársveltasta neyðarástands sem ríkir í heiminum.

Nabiha, 38 ára, gefur börnum sínum te og brauð og telur peningana sem hún á eftir þar sem þau sitja í byggð fyrir brottflutt fólk um 185 kílómetra frá heimaborg sinni, Al-Mokha. Rúmlega hálfur áratugur er liðinn frá því að Nabiha gekk um breiðgötur Al-Mokha og andaði að sér hafgolunni í bland við daufan ilminn af nýristuðu kaffi, sem var aðalsmerki borgarinnar áður en stríðið setti mark sitt á hana.

Sjö ára átök

Nabiha (til hægri) situr með dóttur sinni og sýnir færni sína í hjúkrun. Nabiha flúði til Al-Hudaydah með móður sinni, bróður, dóttur (til vinstri) og tveimur sonum árið 2015. © Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna/Assma Mohamed Alsaghir
Nabiha (til hægri) situr með dóttur sinni og sýnir færni sína í hjúkrun. Nabiha flúði til Al-Hudaydah með móður sinni, bróður, dóttur (til vinstri) og tveimur sonum árið 2015. © Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna/Assma Mohamed Alsaghir

Í vor eru liðin sjö ár frá því að átökin í Jemen tóku að stigmagnast og kostuðu eiginmann Nabihu lífið, en hann lést í sprengjuárás og í kjölfarið neyddist Nabiha og fjölskylda hennar til að leggja á flótta. Margir Jemenar, þar á meðal Nabiha og móðir hennar, dóttir og tveir synir, hafa þurft að leggja tvisvar til þrisvar sinnum á flótta eftir því sem víglínur átakanna hafa færst úr stað.

„Ég bjó mjög nærri átakasvæðinu. Ég varð að flytja annað vegna þess að fjölskyldur dóu og slösuðust allt í kringum okkur. Við fluttum þrisvar, úr einu hverfi í annað, til að forðast byssukúlur og loftárásir,“ segir Nabiha.

Í dag þurfa tveir af hverjum þremur Jemenum – eða 20 milljónir manna – á mannúðaraðstoð að halda til að lifa af. Ástandið í Jemen, sem var fátækt land áður en átökin brutust út, hefur hríðversnað og er nú orðið eitt umfangsmesta neyðarástand í heiminum.

Frá árinu 2015 hafa fleiri en fjórar milljónir Jemena neyðst til að flýja heimili sitt og leita skjóls annars staðar í landinu. Rúmlega helmingur þeirra sem eru vegalaus í eigin landi eru á barmi hungursneyðar og mörg þeirra búa um langan veg frá hreinu vatni eða hreinlætisaðstöðu. Nær fjórir af hverjum fimm Jemenum sem eru vegalausir í eigin landi eru konur og börn.

Til viðbótar við afar takmarkað matvælaöryggi búa margir Jemenar einnig við mjög ótryggar húsnæðisaðstæður. Eftir að hafa neyðst til að leggja ítrekað á flótta vegna breyttra víglína átakanna þurfa margir Jemenar einnig að horfast í augu við yfirvofandi útburð af heimilum sem þeir hafa tímabundið komið sér upp.

Þessu til viðbótar eru fleiri en 100.000 flóttamenn og hælisleitendur – einkum frá Sómalíu og Eþíópíu – í Jemen og þurfa að kljást við margar af sömu áskorunum og Jemenar á faraldsfæti.

Þrátt fyrir gífurlega þörf hafa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna einungis borist 12 prósent af nauðsynlegri fjármögnun fyrir ákallið frá Jemen.

 Lítill drengur kemur með fjölskyldu sinni að sækja aðstoð hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna á svæði fyrir vegalaust fólk í eigin landi í
Lítill drengur kemur með fjölskyldu sinni að sækja aðstoð hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna á svæði fyrir vegalaust fólk í eigin landi í Sa’dah. © Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna/Naief Rahmah

Fjármögnun frá Norðurlöndunum sem ekki er sérstaklega eyrnamerkt – og fjármögnun Svíþjóðar og Íslands á viðbragðsáætlun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Jemen – hefur verið mjög mikilvæg fyrir Flóttamannastofnunina til að geta brugðist við vaxandi þörfum fólks á átakasvæði sem enn er að miklu leyti litið fram hjá og fjársvelt.

„Eftir því sem neyðarástandið í Jemen fer síversnandi eykur fjármögnun frá Norðurlöndunum getu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til að veita hinu fjölmarga fólki sem hefur neyðst til að yfirgefa heimili sín og heimahaga í Jemen húsaskjól, vernd og aðstoð,“ segir Henrik M. Nordentoft, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. „Þrátt fyrir að neyðarástandið í Jemen sé eitt það umfangsmesta í heiminum er það afar fjársvelt og fjármögnun sem ekki er sérstaklega eyrnamerkt er ákaflega veigamikil til þess að hægt sé að veita nauðsynlega aðstoð og vernd.“

Áður en eiginmaður Nabihu lést starfaði hann sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í borginni og hafði kennt Nabihu grunnatriði í hjúkrun. Nú þegar hún er orðin höfuð fjölskyldunnar og ábyrg fyrir að sjá henni farborða vinnur Nabiha vaktavinnu á heilsugæslustöðvum í nágrenninu auk þess að starfa sem herbergisþerna og reynir að ná endum saman til að sjá fyrir móður sinni og börnum.

Starfsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna ræðir við stúlku sem hefur neyðst til að yfirgefa heimili sitt, í Aden í Jemen. © Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna/Saleh bin Haiyan
Starfsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna ræðir við stúlku sem hefur neyðst til að yfirgefa heimili sitt, í Aden í Jemen. © Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna/Saleh bin Haiyan

Eftir því sem þörf á neyðaraðstoð hefur aukist í Jemen undanfarin ár hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna víkkað út áætlun sína um fjárhagsaðstoð. Ólíkt Nabihu hafa 92 prósent þeirra Jemena sem neyðst hafa til að flýja heimili sitt enga möguleika á að afla sér tekna og reiða sig alfarið á mannúðaraðstoð eins og fjárhagsaðstoð Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til að lifa af. Áætlun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um fjárhagsaðstoð nær nú til fleiri en milljón manna á ári.

Til viðbótar áætluninni um fjárhagsaðstoð útvegar Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna nú skýli til að bregðast við erfiðum húsnæðisaðstæðum vegalausra Jemena. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna veitir einnig sálfræðiaðstoð og er með áætlanir í gangi sem beinast sérstaklega að konum og börnum til að veita þeim vernd og fyrirbyggja ofbeldi.

„Ég vil að börnin mín verði sjálfstæð,“ segir Nabiha. „Þau eru frábærir námsmenn. Ég vil að þau geti staðið á eigin fótum þegar ég dey. Ég vil betra líf fyrir þau, betra en ég hef átt.“

Ísland sem stuðningsaðili

Ísland er áreiðanlegur stuðningsaðili Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og lagði fram 1,9 milljónir bandaríkjadala árið 2021, þar af 500.000 bandaríkjadala fjármögnun sem ekki var sérstaklega eyrnamerkt. Fjármögnun sem ekki er sérstaklega eyrnamerkt gerir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kleift að bregðast skjótt við bæði nýtilkomnu og viðvarandi neyðarástandi.

Árið 2021 gaf Ísland meira en 383.000 bandaríkjadali til viðbragðsáætlunar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Jemen 2021–2022.

Danmörk sem stuðningsaðili

Danmörk er eitt þeirra tíu landa sem gefa mest til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og lagði fram 101,2 milljónir bandaríkjadala árið 2021. Hér um bil 34 prósent af framlagi Danmerkur voru ekki sérstaklega eyrnamerkt, sem gerði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kleift að bregðast fljótt við neyðarástandi sem ekki hefur hlotið næga fjármögnun.

Finnland sem stuðningsaðili

Finnland er mikilvægur samstarfsaðili og stuðningsaðili Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og gaf stofnuninni um 26,6 milljónir bandaríkjadala árið 2021. Hér um bil 31 prósent af fjármögnun Finnlands var ekki sérstaklega eyrnamerkt, sem gerði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kleift að bregðast fljótt við neyðarástandi sem ekki hefur hlotið næga fjármögnun.

Noregur sem stuðningsaðili

Noregur er meðal þeirra tíu landa sem gefa mest til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og veitti 107,4 milljónir bandaríkjadala til stofnunarinnar árið 2021. 74 prósent af framlagi Noregs voru ekki sérstaklega eyrnamerkt, sem þýðir að Noregur var það ríki sem lagði fram mesta fjármögnun án eyrnamerkingar árið 2021.

Svíþjóð sem stuðningsaðili

Svíþjóð er meðal þeirra tíu landa sem gefa mest til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og hefur á nokkurra ára tímabili lagt fram mesta fjármögnun sem ekki er sérstaklega eyrnamerkt. Árið 2021 lagði Svíþjóð fram 122,9 milljónir bandaríkjadala til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og þar af var 61 prósent ekki sérstaklega eyrnamerkt.

Árið 2021 gaf Svíþjóð meira en 2 milljónir bandaríkjadala til viðbragðsáætlunar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Jemen 2021–2022.

Hinn 16. mars 2022 stýrði Svíþjóð alþjóðlegri skuldbindingarráðstefnu um neyðarástandið í Jemen ásamt Sviss og Sameinuðu þjóðunum til þess að tryggja áframhaldandi stuðning.

(Heimild: UNHCR Ísland).