Norrænt jafnrétti á fundi kvennanefndar

0
466

 Norðurlönd kvennanefnd SÞ

4. mars 2014. Norrænu jafnréttisráðherrarnir kynna norræn sjónarmið á fundi Kvennanefndar SÞ sem nú stendur yfir í New York.

Þema 58. fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW), 10. – 21. mars , snýst um áskoranir og árangur við framkvæmd þróunarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fyrir konur og stúlkur.

 Á þessu ári fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Það stendur mikið til í jafnréttismálunum enda er samstarf Norðurlandanna á því sviði 40 ára. Mörg mál verða tekin á dagskrá sem snúa að rannsóknum og aðgerðum sem hafa að markmiði að jafna stöðu karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins.

Norrænir jafnréttisráðherrar standa fyrir ýmsum viðburðum á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) til að vekja athygli á árangri 40 ára samstarfs þjóðanna á sviði jafnréttismála og ræða verkefnin framundan. Eygló Harðardóttir fer fyrir norrænu ráðherrunum en hún er formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál á þessu ári.

Árangur og áskoranir sem varða framkvæmd þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um aukið jafnrétti og bætta stöðu kvenna verður megin umræðuefni Kvennaráðstefnunnar í ár. Eygló Harðardóttir, samstarfsráðherra Norðurlandanna, segir að fyrir tilstilli alþjóðasamfélagsins hafi tekist að draga úr barnadauða, aftur á móti hafi orðið bakslag í baráttunni fyrir rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama: „Þetta er mál sem Norðurlandaþjóðirnar hafa beitt sér fyrir á vettvangi SÞ og við munum ekki láta deigan síga“ segir Eygló.

Þann 12. mars standa norrænu ráðherrarnir fyrir pallborðsumræðum um menntun sem leið til að stuðla að jafnrétti og styrkja stöðu kvenna (Promoting Gender Equality and Empowering Women and Girls Through Education), þar sem þeir segja frá því hvernig stjórnvöld beita stefnumótandi ákvörðunum og beinum aðgerðum til að hvetja stúlkur og konur til náms og starfa í raun- og tæknigreinum og til að fjölga konum í stjórnunarstöðum.

Norræna ráðherranefndin efnir einnig til málþings með sérfræðingum á sviði jafnréttismála 13. mars þar sem rætt verður um þær áskoranir og hindranir á vegi jafnréttis í menntakerfinu og á vinnumarkaði sem Norðurlandaþjóðirnar eru enn að kljást við. Staðalímyndir hafa enn sem fyrr áhrif á námsval ungs fólks á öllum menntastigum og virðast hafa mikil áhrif jafnt á stúlkur og drengi. Þessi staðreynd verður umfjöllunarefni málþingsins og jafnframt hvaða leiðir séu færar til að breyta þessu.

(Heimild: http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/34517