Ný auglýsingakeppni Sameinuðu þjóðanna

0
436

 TES-logo-UNRIC-web

 5. júní 2013.Sameinuðu þjóðirnar og Norræna ráðherranefndin hleypa í dag af stokkunum auglýsingasamkeppni til stuðnings baráttunni gegn sóun matvæla. Talið er að þrjátíu prósent allra matvæla í heimilinum fari forgörðum án þess að þeirra sé neytt á sama tíma og nærri 900 milljónir jarðarbúa líða hungur. Í auglýsingakeppninni eru skapandi einstaklingar hvattir til að hanna auglýsingu til að vekja almenning til vitundar um það hversu mikil matvæli fara til spillis.

Fyrstu verðlaunin sem kennd eru við Norrænu ráðherranefndina nema 5,000 evrum. Auglýsingin sem sigrar verður notuð í Think.Eat.Save herferðinni um allan heim, birt í dagblöðum og sýnd ásamt fimmtán efstu auglýsingunum á sýningum víða í Evrópu.

Auglýsingakeppnin er opin Norðurlandabúum, íbúum Eystrasaltsríkjanna og íbúum þeirra héraða Rússlands sem að þeim liggja.

Keppnin er haldin til stuðnings „Think.Eat.Save-Reduce Your Foodprint“ herferð Sameinuðu þjóðanna i gegn sóun matvæla en Alþjóða umhverfisdagurinn, 5. Júní er það þessu sinni helgaður málefninu.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna bendir á að í heiminum sé framleiddur meiri en nógur matur til að brauðfæða alla jarðarbúar en samt eru 870 milljónir vannærðar. Á sama tíma er þriðjungi neysluhæfra matvæla hent.

„Jarðarbúar eru nú um sjö milljarðar en verða níu milljarðar árið 2050. En sveltandi fólki ætti ekki að fjölga. Með því að draga úr sóun matvæla getum við sparað fé og auðlindir, minnkað umhverfisspjöll og síðast en ekki síst stigið skref í átt til heims þar sem allir fá nóg að borða,“ segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu á Alþjóða umhverfisdaginn.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar er á sama máli: „Sóun matvæla er ekki einungis vandamál hvers neytenda fyrir sig, heldur þjóðfélagsvandamál.“

Verðlaun verða afhent 4. október á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn en þá efna samtökin Feeding the 5,000 og Stop Spild af Mad til veislu þar sem sýnt verður fram á hvernig má búa til afbragðs mat úr hráefni sem annars færi til spillis.

Forsprakkar samtakanna beggja eru í dómnefnd keppninnar, Bretinn Tristram Stuart og Daninn Selina Juul. „Sóun matvæla er alþjóðloeg sorgarsaga, en neytendur geta haft mikil áhrif með því að kaupa rétt í matinn og nýta það sem keypt er. Neytendur geta breytt heiminum!“, segir Selina Juul.

Þetta er í fjórða skipti sem UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Brussel leitar til skapandi fólks, fagfólks jafnt sem ófaglærðra um að leggja lóð sín á vogarskálarnar og vekja athygli á alþjóðlegum vandamálum. Stefán Einarsson, grafískur hönnuður hjá Hvíta húsinu vann fyrstu keppnina með glæsibrag og situr nú í dómnefnd. Mikil þátttaka hefur verið í þessum keppnum en nú er keppnin einungis opin fyrir íbúa Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna og nágrannahéraða þeirra í Rússlandi og sigurlíkur hvers þátttakenda því meiri!

Keppnin er hýst á vefsíðunni www.thinkeatsave.org/nordiccompetition

Nánari upplýsingar gefur Árni Snævarr (UNRIC), 00-32-497 458 088 / [email protected]