Ný loforð óþörf, aðgerða þörf í þróun Afríku

0
413

 Sameinuðu þjóðunum, New York, 18. september  2008. (Fréttatilkynning)

Flest Afríkuríki njóta nú meiri hagvaxtar en fyrir áratug og jafnvel meiri hagvaxtar en aðrir heimshlutar í þróunarheiminum. Þrátt fyrir þennan árangur eru Afríkuríki ekki á áætlun að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun, að sögn Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Af þessum sökum verða Afríkuríki og alþjóðlegir samstarfsaðilar þeirra að herða baráttu sína, ekki með nýjum fyrirheitum heldur með því að standa við fyrri fyrirheit; láta verkin tala og hrinda hugsjónum í framkvæmd.

 

Afríka verður í brennidepli á Allsherjarþinginu 22. september

 Framkvæmdastjórinn hefur afhent Allsherjarþinginu yfirlit um árangur og árangursleysi við að ná þróunarmarkmiðum í Afríku vegna sérstaks fundar leiðtoga á Allsherjarþinginu um Afríku 22. september. Á þessum fundi verður í fyrsa skipti farið í saumana á aðgerðum Afríku og Alþjóðasamfélagsins til að hrinda í framkvæmd Nýjum félagsskap um þróun Afríku (New Partnership for Africa’s Development (NEPAD)) helsta vegvísi um þróun álfunnar sem samþykktur var 2001.

Áhyggjur af því að Afríka sé að dragast aftur úr öðrum heimshlutum fara óneitanlega vaxandi. Þótt mörg Afríkuríki hafi náð umtalsverðum árangri á sumum sviðum, er ólíklegt að eitt einasta Afríkuríki nái að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin um þróun fyrir 2015, miðað við núverandi aðstæður.

Tveir fimmtu hlutar Afríkubúa búa við örbirgð. Auk þess að glíma við þennan viðvarandi vanda, standa Afríkubúar frammi fyrir nýjum áskorunum á borð við matvælakreppuna, afleiðingar loftslagsbreyting og hækkandi eldsneytisverð. 
Afríkuríki og samstarfsaðilar þeirra hafa á liðnum árum lofað ýmsum aðgerðum. Framkvæmdastjórinn segir hins vegar í skýrslu sinni að af beggja hálfu að einungis hafi verið staðið við þessi loforð að litlu leyti.

Aðstoð

Á leiðtogafundi G-8, átta helstu iðnríkja heims árið 2005 var samþykkt að tvöfalda aðstoð við Afríku fyrir 2010. Ári síðar hafði opinber þróunaraðstoð (ODA- án tillitis til skuldauppgjafar) aðeins aukist um 8%. Framkvæmdastjórinn segir að síðan hafi enn
syrt í álinn “veitt aðstoð er á eftir áætlun.” Aukinn hluti aðstoðar Evrópusambandsins fer nú til Afríku og var 62% árið 2006. Þróunaraðstoð Evrópusambandsins minnkaði heldur árið 2007.

Framkvæmdastjórinn leggur til að utanaðkomandi stuðningur við þróun í Afríku þurfi að ná 72 milljörðum Bandaríkjadala á ári til að ná Þúsaldarmarkmiðunum. Framkvæmdastjórinn telur einnig að þótt framfarir hafi orðið í þróunaraðstoð til Afríku, séu þróunaráætlanir oft og tíðum ekki samræmdar og taki aðeins hluta til tillit til forgangsatriða í þróunarstefnu viðtakendanna.

Hann hlífir ekki Sameinuðu þjóðunum og segir að það sé tilheniging til að styðja við bakið á sífellt fleiri verkefnum í Afríku en samræmingu skorti. 

Skuldauppgjöf er einn ljósasti punkturinn. Skuldir nítján Afríkuríkja við ríkisstjórnir og fjölþjóðastofnanir höfðu minnkað umtalsvert í júli 2008 vegna skuldauppgjafar. Þannig höfðu opinberar skuldir Afríku minnkað úr um 206 milljörðum dala árið 1999 í 144 milljarða árið 2007. Á hinn bóginn bendir framkvæmdastjórinn á að skuldir einkageirans í Afríku hafi aukist allverulega á sama tíma.

Framkvæmdastjórinn leggur til að fleiri Afríkuríkjum verði veitt skuldauppgjöf.

Viðskipti

Árangur í að bæta viðskiptastöðu Afríku hefur verið takmarkaður, segir í skýrslunni. Doha-samningalotan er í uppnámi. Afríkuríki hafa lagt áherslu á að dregið verði úr niðurgreiðslum Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Japans og Kanada við landbúnaðinn. Heildarstuðningurinn nemur 750 milljörðum dala frá 2001 og hefur í för með sér verulega lækkun á heimsmarkaðsverði fyrir afrískar landbúnaðarvörur.

Friður og öryggi

G-8 hópurinn lofaði 2005 að þjálfa 25 þúsund afríska friðargæsluliða og veita fyrirhugaðri viðbragðssveit Afríkusambandsins tæknilega aðstoð. Bandaríkjamenn ætla að þjálfa 75 þúsund hermenn í Afríku fyrir 2010 og Evrópusambandið studdi viðleitni Afríkusambandsins til að tryggja frið og öryggi með 250 milljóna evra framlagi frá 2005 til 2007. Framkvæmdastjórinn segir hins vegar að aðstoð G-8 hafi verið lítt samræmd og mótast af geðþótta hvers ríkis.

Aðgerðir Afríku

Afríkuríkjunum sjálfum ber að gera meira til að auka tekjur innanlands og auka framleiðni hagkerfa sinna. Afrískar ríkisstjórninr hétu því árið 2003 að verja 10% af opinberum útgjöldum til landbúnaðar- og byggðaþróunar í samræmi við landbúnaðaráætlunir NEPAD. Enn sem komið er hafa aðeins sex Afríkuríki náð þessu marki.

Afríkustjórnir samþykktu einnig árið 2001 að auka útgjöld til heilbrigðismála þannig að þau næmu 15% af opinberum útgjöldum. Enn á ný hafa aðeins sex ríki náð þessu marki.

Þá gerði NEPAD ráð fyrir að komið yrði upp ferli (African Peer Review Mechanism) þar sem Afríkuríki færu yfir árangur hvers annars í útbreiðslu lýðræðis, mannréttinda og góðra stjórnunarhátta. 29 ríki – eða meir en helmingur- taka þátt í ferlinu og sjö hafa lokið við slíka skoðun. Framkvæmdastjórinn mælir með því að afrískar ríkisstjórnir, fjölmiðlar og almannasamtök virkji almenning í ríkari mæli til að taka þátt í þessari umfjöllun. Hann leggur einnig til að Afríkurríki komi á fót álíka ferli til að fara yfir aðgerðir þeirra til að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun. 

Afrískar konur hafa náð nokkrum pólitískum árangri, segir í skýrslunni, því hlutur kvenna á þjóðþingum hefur aukist úr aðeins 7% árið 1990 í 17% árið 2007.

Á almennari nótum mælir framkvæmdastjórinn með því að Afríkuríki efli “þáttöku, virkni og valdeflingu allra hluta þjóðfélagsins” í stjórnmála- og þróunarferlum.

Nánari upplýsingar:

Ernest Harsch
Afríkusviði, Upplýsingadeildar Sameinuðu þjóðanna
Sími:                   00-1-212 963-4513         
Tölvupóstur: [email protected]

Skýrslu framkvmdastjórans í heild má sjá á vefsíðu Africa Renewal
www.un.org/AR. Hana er að finna undir “NEPAD / UN Reports”.