Nýjar ásakanir um kynferðisglæpi

0
516
helmet and flack jackets un peacekeepers8ebd

helmet and flack jackets un peacekeepers8ebd

31.mars 2016. Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að nýjustu fréttir af kynferðislegri misnotkun í Mið-Afríkulýðveldinu séu „hræðilegar“ og krefst ítarlegrar rannsóknar á ásökunum á hendur sveitum Frakka og Sameinuðu þjóðanna auk vígasveita.

„Einskis skal látið ófreistað til að rannsókn Sameinuðu þjóðanna á þessum hræðilegu ásökunum um kynferðislega misnotkun stórra hópa kvenna og stúlkna, leiði í ljós sannleikann í málinu,“ sagði mannréttindastjórinn Zeid Ra’ad Al Hussein. „Við tökum þessar ásakanir, sem sumar hverjar eru einstaklega andstyggilegar, mjög alvarlega. Það er brýnt að fórnarlömbin séu vernduð og fái alla nauðsynlega umönnun.“

Flestar nýjustu ásakanirnar eru á hendur sveitum frá Búrundí og Gabon, sem hafa verið staðsettar í Kemo-héraði frá 2013-2015. „Þeim ríkjum sem eiga í hlut ber að leggja sig meira fram við að hindra að slíkt endurtaki sig, þau verða að refsa hinum seku,“ segir Zeid. Hann telur engan veginn nóg að hinir seku séu sendir heim án þess að þurfa að gjalda önnur reikningsskil gerða sinna.

Skrifstofa talsmanns aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hefur birt upplýsingar frá MINUSCA, friðargæslusveitinni í Mið-Afríklýðveldinu um þessar ásakanir. Teymi MINUSCA hefur ferðast til héraðsins og stendur rannsókn þar enn yfir. Einnig er verið að rannsaka hlut franskra hermanna úr svokölluðum Sangaris-sveitum sem ekki eru undir beinni stjórn SÞ.