Óásættanlegt að COVID-19 sé skálkaskjól fyrir kúgun

0
767
COVID-19, mannréttindi
Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna um COVID-19 og mannréttindi.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varaði ríkisstjórnir heims við því í dag að nota COVID-19 kreppuna til að ganga á lýðréttindi og minnti á mikilvægi frjálsra fjölmiðla og borgaralegs rýmis.

Guterres fylgdi úr hlaði í dag stefnumótun Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum í skugga kórónaveirunnar sem ber heitið „Við erum öll í þessu saman.”

Þar er bent á að þótt veiran fari ekki í manngreinarálit gegni öðru máli um afleiðingarnar. Djúpstæðir veikleikar opinberrar þjónustu hafi komiði í ljós sem og kerfislægur ójöfnuður sem hindri marga í að njóta hennar.

„Við horfum upp á að afleiðingarnar koma hlutfallslega harðar niður á sumum samfélögum, að hatursorðræða færist í vöxt, að hópar sem standa höllum fæti eru gerðir að blórabögglum og að harkalegar aðgerðir öryggissveita grafa undan aðgerðum heilbrigðisyfirvalda.“

Guterres benti á uppgang þjóðernishyggju, valdboðshneigð, lýðskrum og árásir á mannréttindi í mörgum ríkjum. „Kreppan getur þjónað sem tylliástæða til að grípa til kúgunaraðgerða í allt öðru skyni en að stemma stigu við faraldrinum. Slíkt er óásættanlegt.“

Hann benti á að nú sem aldrei fyrr væri mikilvægt að ríkisstjórnir störfuðu á gangsæjan hátt, væru ábyrgar og gildu reikningsskil.

„Og í öllu sem við höfumst að skulum við hafa hugfast: ógnin stafar af veirunni, ekki fólkinu,” sagði Guterres.  „Við verðum að tryggja að hvers kyns aðgerðir, þar á meðal neyðarástand, eigi sér stoð í lögum, gæti meðalhófs, séu nauðsynlegar og feli ekki í sér mismunun, hafi skýrt markmið og tímalengd og eins lítið ágengar og hægt er til að vernda lýðheilsu.“