Ögurstund í kosningu til Öryggisráðsins

Finland

Finland

18. október 2012. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kýs í dag ný lönd til setu í Öryggisráði samtakanna. Tvö laus sæti eru eyrnamerkt svokölluðum Vestur-Evrópu og öðrum ríkjum og berjast Finnar með stuðningi Norðurlandanna við Ástrali og Lúxemborgara.

Norðurlöndin hafa sameinast um framboð til Öryggisráðsins annað hvort tveggja ára kjörtímabil, en fyrir fjórum ári náði Ísland ekki kjöri.

Kosningin hefst klukkan tvö að íslenskum tíma og er hægt að fylgjas með henni hér: http://webtv.un.org/. Utanríkisráðherrar allra þriggja ríkjanna eru í New York og stýra kosningabaráttunni á síðustu metrunum og hafa haldið mótttökur og barist fyrir sínum málstað. Fulltrúar ríkjanna þriggja sem bítast um “Vestur-Evrópu” sætin segjast allir bjartsýnir á að ná kjöri.
      
Að sögn finnska stórblaðsins Helsingin Sanomat leggja Finnar áherslu á að þeir komi að Öryggisráðinu með hreint borð og séu ekki fastir í vef fyrri skuldbindinga. Talið er að þeir bendi á að Ástralir séu nánir bandamenn Bandaríkjanna og Lúxemborgarar í nánum tengslum við Frakka.

Ástralir á hinn bóginn minna á hve mörg Evrópusambandsríki séu í Öryggisráðinu en Bretar og Frakkar eiga þar fast sæti og kann sumum að þykja full mikið að tvö ESB ríki til viðbótar bætist í hópinn.

Tromp Lúxemborgara sem eru eins og Finnar ESB ríki, er svo að þeir eru á meðal gjafmildustu þjóða þegar þróunaraðstoð er annars vegar og láta meir en eitt prósent þjóðartekna renna til þess málaflokks og eru mun rausnarlegri en hin löndin tvö.

Talið er að baráttan harðni fyrst þegar tölur úr fyrstu umferð atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir því eftir það telja margir fulltrúar sig ekki bundna af fyrri loforðum um stuðning.

Helsingin Sanomat telur sig hafa heimild fyrir því að Finnar ætli sér að ná kjöri í fyrstu lotu en Lúxemborgara telji sig eiga fyrst og fremst möguleika ef ekkert landanna hlýtur stuðning tveggja þriðju hluta Allsherjarþingsins í fystu lotu – og þar með kjöri í Öryggisráðsins.

Mynd: Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands er í New York og stýrir kosningabaráttu Finna á síðustu metrunum. Hann ávarpaði raunar Öryggisráðið í gær í opnum umræðum þess um eflingu sjónarmiða réttarríki í alþjóðlegu friðar og öryggisstarfi og hlutverk Alþjóðaglæpadómstólsins (ICC). SÞ/Rick Bajornas