Öryggisráð heimilar valdbeitingu gegn Líbýu

0
464
alt

 altÖryggisráð Sameinuðu þjóðanna heimilaði í dag (17. mars) í reynd notkun valds til að vernda almenna borgara í Líbýu. Ghaddafí, höfuðsmaður hefur lýst yfir að árás verði gerð á borgina Benghazi til að binda enda á upppreisn gegn stjórn hans.  

Öryggisráðið samþykkti ályktun um að beita ákvæðum 7. kafla Stofnsáttamála Sameinuðu þjóðanna með tíu atkvæðum en fimm sátu hjá. Þar er kveðið á um beitingu hervalds, ef nauðsyn krefur. Í ályktuninni er aðildarríkjum veitt heimild til að “grípa til allra nauðsynlegra aðgerða …til að vernda almenna borgara” vegna hótana um aðgerðir gegn uppreisnarmönnum í borginni Benghazi.

Tvö ríki, Kína og Rússland sem hafa neitunarvald sátu hjá en það gerðu einnig Brasilía, Indland og Þýskaland.
Ráðið lýsti yfir flugbanni á líbýsku yfirráðasvæði vegna mikils mannfalls óbreyttra borgara. Eina undantekningin eru flug í mannúðarskyni.

Arbabandalagið er sérstaklega hvatt til þess að taka höndum saman við önnur aðildarríki um samvinnu til að grípa til aðgerða. Arababandalagið óskaði eftir því um síðustu helgi við Öryggisráðið að sett yrði á flugbann. Hert er á vopnasölubanni við Líbýu sem öryggisráðið samþykkti í síðasta mánuði. Þá var einnig hald lagt á eignir leiðtoga landsins og ofbeldisaðgerðir gegn mótmælendum vísað til Alþjóðaglæpadómstólsins.