Össur gagnrýnir öryggisráðið

0
448
Syria

Syria

14. júní 2012. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra vill draga þá sem bera ábyrgð á voðaverkum í Sýrlandi fyrir alþjóðlega dómstóla. Íslendingar styðja tillögu í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þess efnis.

„Ég hef fyrir hönd Íslands hvatt til þess að Öryggisráðið taki ákvörðun um að vísa stórfelldum brotum sýrlensku ríkisstjórnarinnar á mannréttindum og mannúðarlögum til Alþjóðadómstólsins,“ segir utanríkisráðherra Íslands í viðtali við Fréttablaðið.

Össur segir núverandi skipulag Öryggisráðsins, þar sem einstakar þjóðir hafi neitunarvald að fornri venju, óásættanlegt. Rússar og Kínverjar standi gegn straumi alþjóðasamfélagsins gagnvart Sýrlandsstjórn. „Þetta sýnir hvað Öryggisráðið er gersamlega ónýtt tæki.“

Utanríkisráðherra segir ljóst að friðarleið Kofis Annan hafi ekki skilað árangri. Ekki sé hægt að koma hjálpargögnum til nauðstaddra og mikil neyð hafi skapast. Hann segir hernaðaraðgerðir mögulegan kost.

„Já, mér finnst það koma til greina ef alþjóðasamfélagið verður því sammála,“ segir hann. „Á hinn bóginn er það þannig að menn vilja skakka leikinn með einhverjum hætti, en geta það ekki þar sem sú regla er almennt viðurkennd að menn fara ekki með einhvers konar valdi inn í lönd nema öryggisráðið telji það nauðsynlegt og þar er málið stopp.“- (heimild: visir.is)