Óháðrar rannsóknar krafist á drápi fréttamanns Al Jazeera

0
22
Mynd af Shireen Abu Akleh á veggspjaldi við Al-Manara hringtorgið í Ramallah. UN Photo/Shirin Yaseen
Mynd af Shireen Abu Akleh á veggspjaldi við Al-Manara hringtorgið í Ramallah. UN Photo/Shirin Yaseen

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segist harmi sleginn yfir drápi fréttamanns Al Jazeera við skyldustörf á vesturbakka Jórdanar í gær.

Shireen Abu Akleh, palestínsk-amerísk fréttakona sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera var skotin til bana þegar hún fylgdist með aðgerðum ísraelskra öryggissveita í Jenin á herteknu svæði á vesturbakka Jórdanar.

Aðalframkvæmdastjórinn António Guterres krefst þess í yfirlýsingu að óháð og gegnsæ rannsókn fari fram á þessu atviki og gerendur sæti ábyrgð fyrir verknaðinn. Hann fordæmdi hvers kyns árásir og dráp blaðamanna. „Starfsmenn fjölmiðla verða að njóta frelsis við vinnu sína, án þess að sæta harðræði eða að þurfa að óttast að vera skotmark,“ segir í yfirlýsingu Guterres.

Þekktur fréttamaður

Shireen Abu Akleh var einn þekktasti fréttamaður Al Jazeera og var fimmtíu og eins árs þegar hún lést. Félagi hennar Ali Samoudi særðist í árásinni á þau. Bæði voru þau í vestum merktum „press“ þegar ráðist var á þau.

Audrey Azoulay forstjóri Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) benti á þessa staðreynd í yfirlýsingu sinni. „Það er brot á alþjóðalögum að drepa starfsmenn fjölmiðla sem merktir eru með þessum hætti. Ég hvet hlutaðeigandi yfirvöld til að rannsaka þennan glæp og sækja þá sem bera ábyrgð, til saka.“

Azouley minnti á að UNESCO hefði tekið saman aðgerðaáætlun til að tryggja öryggi blaðamanna og binda enda á refsileysi við árásum á þá.